Skoðun

Búseta 1.000 eldri borgara í uppnámi

Haraldur Finnsson skrifar
Búmenn er húsnæðissamvinnufélag fyrir 50 ára og eldri. Það á 540 íbúðir í 13 sveitarfélögum. Á höfuð­borg­ar­svæð­inu eru þessar íbúðir eftir­sóttar enda mjög hentugar fyrir eldra fólk. Í íbúðum þeirra búa nú nær 1.000 manns við óvissu eftir að félagið fór í greiðslustöðvun í vor. Gjaldþrot félagsins hefði ófyrir­sjáanlegar af­leið­ingar, bæði fyrir íbúana og Íbúða­lánasjóð, sem myndi tapa mikl­um fjármunum. Meðal­aldur íbúanna er 70-75 ár, flestir því eftir­launafólk sem hefur þurft að taka á sig miklar kjara­skerðingar á liðnum árum.

Ef ekki á illa að fara verða stjórn­völd, bæði ríkis og sveitar­fél­aga, að koma að lausn málsins. Stjórn­­­­­völd bera ábyrgð á því hvernig er komið, m.a. með því að íbúar hús­næðis­sam­vinnufélaga sátu ekki við sama borð og aðrir íbúðareigendur varð­andi leið­rétt­ingu á hús­næðis­lánum og reyndar af fleiri ástæðum. Í regl­um Íbúða­lána­sjóðs segir að meta skuli þörf fyrir húsnæði. Þrátt fyrir það var lánað til bygginga á svæðum þar sem þörfin var ekki fyrir hendi, líklega fyrir þrýsting frá sveitar­félög­unum.

Tugir tómra íbúða

Ábyrgðin er því ekki eingöngu stjórn­enda félagsins þó vissulega hafi ýmislegt farið úrskeiðis hjá þeim. Vandi félagsins felst einkum í endurgreiðslu á búseturétti í íbúð­­um sem ekki hefur tekist að selja aftur. Félagið situr uppi með nokkra tugi tómra íbúða í nokkrum sveitarfélögum, eink­um á Suðurnesjum og í Hvera­gerði. Vand­­inn er bundinn við ákveð­in svæði, annars staðar eru íbúð­irn­ar eftir­sóttar. En allir íbúar Búmanna­íbúða eru samábyrgir. Þegar al­menn­ir sjóðir félagsins dugðu ekki til að greiða út búseturétti greip stjórn­­in til þess óyndisúrræðis að nýta Viðhaldssjóð félagsins sem all­ir íbúar hafa greitt í til að sinna eðli­legu viðhaldi, án þess að spyrja eða láta íbúa vita.

Hvergi kemur fram í lögunum að sú notkun sjóðsins sé heimil. Þarna var fé í eigu félagsmanna notað á mjög vafasaman hátt. Stjórn félagsins hefur tregðast við að upplýsa og hafa samráð við félags­menn. Hefur frestað að halda aðal­fund fram í september þó sam­þykkt­ir segi að hann skuli halda í júní. Þrátt fyrir að lög og sam­­þykktir segi til um að þá skuli ráðu­neyti grípa inn í þá gerist ekkert.

Núverandi staða íbúanna er mis­jöfn eftir byggingarflokkum en greiðsl­ur af lánum hafa hækkað jafnt og þétt og auk þess þarf að greiða fasteignagjöld, tryggingar, rekst­­ur húsfélagsins og svo áfram í við­haldssjóð sem er nánast tómur eft­ir að hafa verið (mis)notaður í að greiða út búseturéttargjöld. Sér­­staklega bitnar þetta illa á ein­hleypum og þeim sem missa maka og þurfa að greiða af íbúð sinni einir. Þegar mánaðargjöld af íbúð hjá Búmönnum eru komin í 150-200 þúsund á mánuði þá er ljóst að staðan er alvarleg fyrir einstakling á lág­markslífeyri.

Boðuð frumvörp um húsnæðismál duga ekki í þessu máli. Leysa verður málið strax. Annars lenda 1.000 íbúar, flestir á eftirlaunaaldri, í ógöng­­um með búsetu sína. Hvernig ætla sveitarfélögin, þar sem þessar íbúðir eru, að bregðast við?

Á enn einu sinni að herða að eftir­launafólki og ganga á rétt þess?




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×