Innlent

Bundinn við hjólastól eftir bílslys og fer fram á skaðabætur

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Bíllinn stórskemmdist en slysið varð við Sörlatorg í Hafnarfirði þar sem Reykjanesbraut beygir til norðurs.
Bíllinn stórskemmdist en slysið varð við Sörlatorg í Hafnarfirði þar sem Reykjanesbraut beygir til norðurs. Vísir/GVA
Karlmaður um þrítugt hefur stefnt Draupni Gestssyni og Vátryggingafélagi Íslands vegna skaða sem hann hlaut í bílslysi á Reykjanesbrautinni í mars fyrir rúmum þremur árum. Maðurinn, sem sat í aftursæti bifreiðarinnar, kastaðist út úr henni og hlaut alvarlegan mænuskaða. Hefur hann verið bundinn við hjólastól síðan. Fer hann fram á fjórar milljónir króna í bætur.

Bílnum var ekið á í kringum um 178 kílómetra hraða á klukkustund þegar Draupnir missti stjórn á honum. Hann var undir áhrifum áfengis en fjórir farþegar voru í bílnum. Annar hlaut brot og sár af ýmsum toga og fer hann fram á tvær milljónir króna í bætur vegna málsins. Hinir tveir sluppu með minniháttar meiðsli.

Draupnir var dæmdur í átján mánaða fangelsi í febrúar fyrir að hafa stefnt lífi farþega sinna í hættu en einkaréttakröfur mannanna voru gerðar að einkamáli. Fyrstu fyrirtökurnar í máli mannanna tveggja sem stefnt hafa Draupni fóru fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.

Vissu ekki að ökumaðurinn var undir áhrifum

Bíllinn sem Draupnir ók kastaðist rúma 30 metra. Í dómssal sögðust farþegarnir lítið muna. Þeir höfðu allir verið í afmælisfögnuði í Hafnarfirði frá því snemma um daginn og var áfengi við hönd. Þegar leið á kvöldið hafði stefnan verið tekin á miðbæ Reykjavíkur.

Mennirnir áttu erfitt með að muna eftir slysinu. Einn þeirra sagði þó að ökumaðurinn hefði líklega ekið bifreiðinni hraðar en á leyfilegum hámarkshraða og tók mið af því að bílnum hefði verið ekið fram úr nokkrum bifreiðum.

Þá sögðust vitnin ekki hafa séð áfengi á ökumanninum og sagði eitt vitnanna að ökumaðurinn hefði tjáð því að hann „væri ekki að drekka” umrætt kvöld.

Uppfært klukkan 14:25

Lögmaður Draupnis, Snorri Sturluson, segir í samtali við Vísi að dómnum hafi verið áfrýjað til Hæstaréttar.


Tengdar fréttir

Drukkinn á 178 km hraða: Farþegi varanlega lamaður eftir bílveltu

Ríkissaksóknari höfðar nú mál á hendur 34 ára karlmanni sem gefið er að sök að hafa sest ölvaður undir stýri, ekið langt umfram leyfilegan hámarkshraða og þar með stofnað á ófyrirleitin hátt lífi farþega og annarra vegfaranda í verulega hættu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×