Innlent

Buðu sama 7% kvótann í makríl aftur

María Damanki
María Damanki
ESB og Noregur höfðu ekkert nýtt fram að færa í samningaviðræðum um makrílkvóta sem lauk í Reykjavík á fimmtudag. Heimildir blaðsins herma að Íslendingum hafi verið boðin sama hlutdeild og á síðasta fundi í Bergen sem Íslendingar svöruðu þá með gagntilboði. Þetta gengur þvert á fullyrðingar æðstu ráðamanna ESB og Noregs um að engan samningsvilja sé að finna á Íslandi og í Færeyjum.

Eins og komið hefur fram í fréttum sendu María Damanaki, sjávarútvegsstjóri ESB, og Lisbeth Berg-Hansen, sjávarútvegsráðherra Noregs, frá sér yfirlýsingu á fimmtudag eftir að ljóst var að fundurinn í makríldeilunni var árangurslaus. Var þar lýst vonbrigðum yfir lyktum málsins og fullyrt að Íslendingar hefðu ekki tekið þátt í samningaviðræðunum. Þær fullyrða jafnframt að Noregur og ESB hafi boðið Íslendingum og Færeyingum umtalsverða aukna hlutdeild í kvótanum í undangengnum viðræðum.

Heimildir Fréttablaðsins herma hins vegar að á síðasta samningafundi í Bergen á dögunum hafi ESB og Noregur lagt fram sameiginlega tillögu um 7% hlutdeild Íslands í makrílveiðunum með nokkrum aðgangi að lögsögum þeirra og að Ísland hafi lagt fram gagntillögu um 15% hlutdeild með aðgangi að lögsögum. Það sama var uppi á borðum í Reykjavík.

Tómas H. Heiðar, aðalsamningamaður Íslands, segir að Ísland hafi tekið virkan þátt í samningaviðræðum um makrílveiðar og lagt sig fram við að leita lausna til að tryggja sjálfbærar veiðar og koma í veg fyrir ofveiði úr stofninum. „Fullyrðingar um hið gagnstæða eru fráleitar.“

Spurður hvort hann geti staðfest að á síðasta samningafundi í Bergen á dögunum hafi ESB og Noregur lagt fram fyrrnefnda tillögu um 7% hlutdeild Íslands sem svarað var með gagntillögu um 15%, segist Tómas ekki getað tjáð sig um innihald einstakra tillagna.

„Hins vegar get ég staðfest að á fundinum í Bergen lögðu ESB og Noregur fram sameiginlega tillögu sem Ísland svaraði með gagntillögu. Í ljósi þess væntum við útspils frá ESB og Noregi á fundinum hér í Reykjavík en það leit því miður aldrei dagsins ljós,“ segir Tómas.

Tómas segir að þegar ljóst varð að ekki tækist að brúa bilið og ná samkomulagi hér í Reykjavík um skiptingu aflaheimilda hafi Ísland lagt til að allir aðilar drægju hlutfallslega jafnt úr veiðum sínum í ár. Þannig yrðu veiðarnar í samræmi við ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES). „Því miður voru hinir aðilarnir ekki reiðubúnir til að fallast á tillöguna.“

Makrílveiðarnar á síðasta ári voru um 930.000 tonn en ráðgjöf ICES fyrir árið 2012 er 639.000 tonn. Því gerði tillaga Íslands ráð fyrir að hver aðili um sig myndi minnka makrílveiðar sínar á þessu ári um 30%.svavar@frettabladid.is

Mynd/Óskar


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×