Innlent

Búast má við þungri færð norðanlands á morgun

Birgir Olgeirsson skrifar
Fyrir helgina má búast við kólnandi veðri en á laugardag og sunnudag má búast við að frost geti farið niður í tveggja stafa tölu víðsvegar um landið.
Fyrir helgina má búast við kólnandi veðri en á laugardag og sunnudag má búast við að frost geti farið niður í tveggja stafa tölu víðsvegar um landið. Vísir/Pjetur
„Það getur orðið þungfært á morgun,“ segir Þorsteinn Jónsson, veðurfræðingur á Veðurstofur Íslands, en búast má við talsverðri snjókomu á Norðurlandi um tíma í fyrramálið. Um kvöldið bætir í vind og ofankomu á öllu Norðurlandi og Vestfjörðum þar með töldum líka.

„Hann fer í norðaustan storm á Vestfjörðum annað kvöld og snjóar talsvert,“ segir Þorsteinn. Á fimmtudaginn er norðan- og norðaustan hvassviðri, éljagang og snjókomu víða norðan- og norðaustanlands, jafnvel storm á Austfjörðum. „Þetta er að fara svolítið í norðanáttirnar núna,“ segir Þorsteinn.

Fyrir helgina má búast við kólnandi veðri en á laugardag og sunnudag má búast við að frost geti farið niður í tveggja stafa tölu víðsvegar um landið.

„Það eru frekar ótryggar spárnar spurning hvað gerist á sunnudeginum hvort það komin inn eitthvað lægðardrag með ofankomu. En svona öllu jöfnu verður þetta frekar hægur vindur virðist vera yfir helgina,“ segir Þorsteinn en lítið tilefni er til mikillar bjartsýni ef rýnt er í langtímaspár.

„Það virðist önnur lægðasyrpa byrja í næstu viku með hvassviðri og allskonar áttum og ýmsum umhleypingum. Þetta er bara klassískt vetrarveður. Spurning hvort helgin geti orðið þokkaleg, hægur vindur og bjartviðri víða, en það verður kalt, en það gæti orðið fínasta veður víða um land.“

Þú getur fylgst með á veðurvef Vísis. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×