Innlent

Brynjar segir að Sigmundur Davíð verði að segja hreint út hvort honum hafi verið boðnar mútur

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Framsóknarflokksins, verði að segja hreint út hvort að aðilar á vegum vogunarsjóða hafi reynt að múta honum þegar hann var forsætisráðherra.

Í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni lýsti Sigmundur Davíð samskiptum sem hann hafði átt við starfsmenn vogunarsjóða sem áttu hagsmuna að gæta á Íslandi. Mátti skilja það sem svo, án þess að Sigmundur Davíð segði það berum orðum, að þeir hefðu á einhverjum tímapunkti reynt að múta forsætisráðherranum fyrrverandi, til þess að fá fram hagfellda niðurstöðu í viðræðum sínum við íslensk stjórnvöld.

Verður að segja nákvæmlega hvað menn voru að reyna að gera

Brynjar Níelsson, sem er formaður stjórskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, var spurður út í orð Sigmundar Davíðs í þættinum Í bítinu á Bylgjunni í morgun. sagði hann að ljóst væri að ef Sigmundur Davíð væri að segja að honum hefði verið boðnar mútur væri það alvarlegt mál. Hann væri þó ekki viss um að slíkt hafi átt sér stað.

„Það er hægt að skilja þetta þannig auðvitað. En mér fannst hann ekki nógu alveg skýr í orðum til þess að ég ætli að draga þá ályktun alveg svona eins og ekkert sé,“ sagði Brynjar aðspurður um hvort að skilja mætti orð Sigmundar Davíðs þannig að honum hefði verið boðnar mútur.

Spurður að því hvort að hann, sem formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, myndi skoða þetta mál frekar, sagði hann að Sigmundur Davíð þyrfti hreinlega að skýra mál sitt.

„Ég vil auðvitað að fyrrverandi forsætisráðherra segi nákvæmlega hvað gerðist úr því að hann er búinn að segja það hálfpartinn, gefa það í skyn að honum hafi verið mútað,“ sagði Brynjar. „Hann verður að segja það nákvæmlega hvað menn voru að reyna að gera.“

Hlusta má á viðtali við Brynjar í spilaranum hér að ofan. Hér að neðan má hlusta á viðtali við Sigmund Davið í Sprengisandi í gær.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×