Innlent

Brjálað að gera hjá Slökkviliði Akureyrar

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Slökkviliðið að störfum á Akureyri.
Slökkviliðið að störfum á Akureyri.
Slökkvilið Akureyrar hefur haft nóg að gera í dag og í gær en frá gærdeginum hefur slökkviliðið alls sinnt 42 útköllum. „Þetta er mjög mikið,“ segir varðstjóri hjá slökkviliðinu.

Slökkviliðið sinnir, eins og nafnið gefur til kynna eldvörnum, en sér einnig um sjúkraflutninga og tekur þátt í sjúkraflugi. Í gær sinnti slökkviliðið 22 útköllum, þar af þrettán sjúkraflutningum, fimm sjúkraflugum og fjórum dæubílaútköllum. Í dag eru útköllin orðin nítján, þar af sextán sjúkraflutningar.

„Þessi fjöldi er ekki algengur, við erum oft í tíu til tólf útköllum á dag,“ segir Jónas Baldur Hallson, varðstjóri hjá slökkviliðinu. Hann segir að auk óvenju mikils fjölda útkalla hafi einnig verið óvenju mikið um alvarleg útköll.

„Það er búinn að vera hár forgangur á mörgum af þessum útköllum og í dag erum við til að mynda búnir að fara í ellefu neyðarflutninga,“ segir Jónas. „Þegar mest lét vorum við með þrjá sjúkrabíla úti i einu. Þá köllum við þá út sem er lausir svo hægt sé að manna útköllin.“

Alls eru fimm manns á vakt í einu og sér slökkviliðið um eldvarnir og sjúkraflutninga á stóru svæði, allt frá Akureyri að Öxnadalsheiði, út til Dalvíkur, Grenivíkur, að Ljósavatnsskarði og upp á hálendinu inn frá Eyjafirði. Það hefur því verið töluvert álag á mannskapnum síðustu daga þrátt fyrir að flest útköllin hafi verið innanbæjar á Akureyri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×