Innlent

Breytti ekki siðferðilega rétt

Í upphaflegri kæru sagði að presturinn hefði áður átt í samskiptum við föðurinn og hefði því verið fullkunnugt um hug hans til skírnarinnar.
Í upphaflegri kæru sagði að presturinn hefði áður átt í samskiptum við föðurinn og hefði því verið fullkunnugt um hug hans til skírnarinnar. mynd/úr safni

Séra Svavar Alfreð Jónsson breytti ekki siðferðilega rétt þegar hann skírði stúlku á Akureyri í óþökk föður hennar, að mati áfrýjunarnefndar þjóðkirkjunnar.

Greint var frá því í Fréttablaðinu 27. mars síðastliðinn að Svavar hefði verið kærður til lögreglu fyrir að skíra sjö ára stúlku, án þess að spyrja föður hennar. Svavar sagði þá að það væri venjan að spyrja báða foreldra, en í þessu tilfelli hefði hann látið framburð móður hennar duga. Móðirin tók þó fram að faðirinn hefði „sterkar skoðanir á þjóðkirkjunni og skírn“.

Foreldrarnir fóru þá sameiginlega með forsjá barnsins og segir áfrýjunarnefnd að prestinum hefði mátt vera ljóst að barnið bjó hjá föðurnum.

Í ljósi sérstakrar stöðu þjóðkirkjunnar sé eðlilegt að prestar hennar líti til íslenskra laga þegar skorið sé úr um hverjir teljist forsjáraðilar barna, sérstaklega ef ástæða er til að ætla að annar forsjáraðili sé andvígur skírninni. Prestinum hafi borið siðferðilega skylda til að leita til föðurins.

Skírn feli í sér að ástvinir séu hvattir til að ala barnið upp sem kristinn einstakling. Því megi draga í efa að það hafi verið stúlkunni fyrir bestu að taka skírn í andstöðu við föður sinn. - kóþ



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×