Íslenski boltinn

Bræðraslagur kostaði eitt stig

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Davíð Steinn Sigurðarson fagnar sæti KV í 1. deildinni síðasta sumar.
Davíð Steinn Sigurðarson fagnar sæti KV í 1. deildinni síðasta sumar. Vísir/Daníel
KV, sem leikur í 1. deild í fyrsta skipti í níu ára sögu félagsins í sumar, gerði jafntefli við Pepsi-deildarlið Víkings, 2-2, í lokaumferð 3. riðils A-deildar Lengjubikarsins í fótbolta síðastliðið föstudagskvöld. Úrslitunum hefur þó verið breytt í 3-0 sigur Víkinga því KV-menn notuðust við ólöglegan leikmann í leiknum.

Davíð Steinn Sigurðarson, miðjumaður KV, fékk sitt þriðja gula spjald í leiknum á undan gegn Víkingum úr Ólafsvík og hefði því átt að taka út leikbann en það yfirsást KV-mönnum.

Davíð Steinn er í láni frá Víkingum en hafði fengið leyfi til að spila leikinn, ólíkt því þegar liðin mættust í Borgunarbikarnum síðasta sumar.

Leikurinn verður eftirminnilegur fyrir Davíð þar sem hann mætti bróður sínum, Halldóri Smára Sigurðarsyni, í fyrsta skipti á knattspyrnuvellinum en Halldór hefur leikið allan sinn feril með Víkingi.

„Leikurinn í kvöld mun seint gleymast en KV og Víkingur mættust þar sem ég og stóri bróðir byrjuðum á sitthvorri miðjunni,“ skrifaði Davíð Steinn á Instagram-síðu sína eftir leik.

Þessi bræðraslagur kostaði KV þó eitt stig en það hafði engin áhrif á lokastöðu riðilsins. KV komst ekki áfram en Víkingar enduðu í 2. sæti og mæta Breiðabliki í átta liða úrslitum.

FH notaði einnig ólöglegan leikmann í 3-2 sigri á Fjölni í næstsíðustu umferð 1. riðils. Það varð til þess að Þór fór upp fyrir FH í 1. sæti riðilsins og hefur það í för með sér breytingar á átta liða úrslitum Lengjubikarsins.

Í stað þess að mæta Keflavík í átta liða úrslitum mætir FH nú Stjörnunni en Þórsarar mæta Keflvíkingum í átta liða úrslitum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×