Innlent

Börnin inni vegna mengunar

Mikil loftmengun hefur verið í Reykjavík síðustu daga.
Mikil loftmengun hefur verið í Reykjavík síðustu daga.
Loftmengun í Reykjavík hefur verið með versta móti síðustu daga og hefur leikskólabörnum víða um borgina verið haldið innandyra í marga daga sökum þess.

Loftgæðamælingar Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkurborgar sýna að mengun hefur farið yfir heilsuverndarmörk alla daga síðan á þriðjudag, en þegar það gerist sendir leikskólasvið ábendingu til leikskólanna.

Anna Rósa Böðvarsdóttir hjá heilbrigðiseftirlitinu segir að ekki hafi verið skoðað sérstaklega hvort um óeðlilegt ástand hafi verið að ræða miðað við árstíma.

„Það hefur verið mjög hvasst síðustu daga og þá þyrlast upp ryk alls staðar í umhverfinu," segir Anna Rósa.

Leikskólastjórar á skólum nálægt helstu umferðaræðum eru sérstaklega meðvitaðir um málið.

Ólafía Björk Davíðsdóttir, leik­skóla­­stjóri Stakkaborgar í nágrenni Miklubrautar, segir að ef mengun fari yfir heilsuverndarmörk fari börnin ekki út.

„Það var mjög hátt einn daginn í vikunni, en svo er líka búið að vera mjög kalt og það er ekki síður ástæðan fyrir því að börnin voru inni."

Talið er að lægja muni í dag og mengun ætti að minnka í kjölfarið, en óvíst er hvort hún verður undir heilsuverndarmörkum. - þj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×