Innlent

Borgin hefur ekkert vald til að takmarka tjáningarfrelsi starfsmanna

Jakob Bjarnar skrifar
Halldór fékk skýrari svör frá borginni en Hildur hafði fengið. Mannauðsstjóri breytir svari sínu og segir nú að borgin megi ekki takmarka tjáningarfrelsi. Á myndinni eru ráðhúsið, Halldór, Hildur og mannréttindastjóri borgarinnar: Anna Kristinsdóttir.
Halldór fékk skýrari svör frá borginni en Hildur hafði fengið. Mannauðsstjóri breytir svari sínu og segir nú að borgin megi ekki takmarka tjáningarfrelsi. Á myndinni eru ráðhúsið, Halldór, Hildur og mannréttindastjóri borgarinnar: Anna Kristinsdóttir.
Hildur Sverrisdóttir borgarfulltrúi fagnar viðsnúningi sem orðið hefur í svörum bæði borgarlögmanns og mannréttindaskrifstofu við spurningum sem hún hefur sett fram í mannréttindaráði, þá til mannréttindaskrifstofu borgarinnar.

„Heimild til slíkrar skerðingar tjáningarfrelsis starfsfólks Reykjavíkurborgar er hvorki að finna í kjarasamningum sem Reykjavíkurborg hefur gert við stéttarfélög né verður sú heimild leidd af almennum lögum,“ segir í svari borgarlögmanns við fyrirspurn Halldórs Auðar Svanssonar fulltrúa Pírata í borgarstjórn.

Halldór greinir frá málinu á Facebooksíðu sinni. Víst er að málið hefur valdið verulegum titringi innan borgarkerfisins. Málið snýst um meint hatursummæli sem starfsmenn borgarinnar áttu að hafa látið falla, og uppskorið tiltal frá yfirmönnum sínum.

Vísir hefur fjallað nokkuð um það mál.

Þegar Hildur hins vegar fór að spyrjast fyrir um málið, var fátt um svör: Ekkert liggur fyrir hvar og hvenær og hverjir létu hvaða ummæli falla. Svör mannréttindastjóra borgarinnar, Önnu Kristinsdóttur, skyldu eftir fleiri spurningar en svör.

Hildur hefur rekist á veggi með spurningar sínar sem snúa að umboði borgarinnar að tukta til starfsmenn vegna meintra hatursummæla.
Það var hins vegar ekki fyrr en Halldór fylgdi athugasemdum Hildar eftir að borgarlögmaður svaraði, eins og sjá má hér ofar.

Misvísandi skilaboð og þversagnir

„Borgarlögmaður svaraði Halldóri og segir að borgin hafi ekki heimild til að gera athugasemdir við tjáningu starfsmanna eins og ég hafði haldið fram. Það var borið undir mannauðsskrifstofuna sem segir núna: „Mannauðsdeild er sammála áliti borgarlögmanns. Fyrri svör mannauðsdeildar miðuðust við það að starfsmaður hefði brotið af sér í starfi og er miður að það hafi ekki komið nægilega skýrt fram.“ Þetta er viðsnúningur og önnur svör en ég fékk,“ segir Hildur í samtali við Vísi, en hún gerir ítarlega grein fyrir málinu á Facebooksíðu sinni.

Hildur fagnar þessum viðsnúningi en segir enn ýmist atriði óljós í málinu. „... hví í ósköpunum það kom ekki fram fyrr að einungis væri um ummæli í starfi að ræða. Hvorki ég, né nokkur mér að vitandi, hefði fett fingur út í þetta ef það var einungis svo að um ummæli innan starfs var að ræða. Auðvitað er það skýrt brot á starfsreglum ef starfsmaður borgarinnar er að gera upp á milli borgarbúa í orði eða öðru hátterni í starfi sínu í þjónustu við borgarbúa. Það er alveg skýrt og enginn hefur nokkurn tíma í þessu máli fett fingur út í slíkt. Af hverju var það þá ekki sagt strax í staðinn fyrir misvísandi skilaboð og þversagnir í svörum?“

Valdhroki og skætingsleg svör

Og Hildur kvartar undan því sem hún kallar skæting í sinn garð eftir að hún tók málið upp.

Sóley hélt því fram að fyrirspurnir Hildar væru aðför að mannréttindaskrifstofu, sem fulltrúum Sjálfstæðisflokksins í borginni fannst fráleitt upplegg.
„Ég sagði á borgarstjórnarfundi í gær að því miður hefði mér verið misboðið hversu fálega og skætingslega þessum athugasemdum mínum var mætt af pólitíkinni – sérstaklega þar sem útgangspunktur minn var allan tímann að benda á að allir í stjórnkerfinu Reykjavíkurborg ættu auðvitað að vera á tánum gagnvart því að tjáningarfrelsi starfsmanna væri ekki virt að vettugi á óskýran og þá ólögmætan hátt. Ég notaði orðið valdhroki því ég varð einfaldlega bit yfir að viðbrögð meirihlutans voru ekki þau að þetta þyrfti greinilega að skoða betur miðað við það sem hefði komið fram í málinu, og allir gætu staðið saman að því að ræða það. Í staðinn fór orka þeirra í að gera lítið úr gagnrýni minni. Hún hefur nú reynst hafa verið alveg réttmæt og ekkert nema eðlilegt að ég dró þær alvarlegu ályktanir sem ég gerði af þeim svörum sem mér höfðu borist frá borginni.“

Hildur er hér væntanlega að vísa, meðal annars, til viðbragða Sóleyjar Tómasdóttur vegna málsins, en Vísir greindi frá því í síðustu viku.

Óljósar eftiráskýringar

Eins og áður sagði fjallar Hildur ítarlega um málið á sinni Facebooksíðu, segir til að stjórnvald megi ekki leyfa sér slík vinnubrögð að það sé ekki kýrskýrt á hvaða grunni það sé verið að gera athugasemdir við tjáningu starfsmanna.

Það var ekki fyrr en Halldór, sem er í meirihluta í borginni, spurði að borgarlögmaður ákvað að svara spurningunni.
„Óljósar eftiráskýringar um að ummælin voru einungis viðhöfð “í starfi” breiða ekki yfir það að allan tímann í þessu máli var bæði fjölmiðlaumfjöllun af hálfu borgarinnar og opinber svör hennar á þá leið að réttlætt væri að borgin hefði heimildir til að takmarka tjáningu starfsmanna sinna. Þegar það hefur svo komið í ljós að borgarlögmaður tekur undir að borgin hefur ekki þær heimildir kemur í fyrsta skipti fram að ummælin voru einungis metin sem brot á starfsreglum vegna ummæla í starfi en engu öðru,“ segir Hildur sem ætlar að láta staðar numið í þessu máli að sinni.

Hún hefur engar sérstakar skýringar tiltækar á því hvers vegna svörin voru skýrari þegar Halldór spurði sömu spurninga og hún, né heldur hvað borginni gekk til með að vilja láta í það skína að yfirstjórn þar hefði eitthvað um tjáningarfrelsi starfsmanna borgarinnar að segja, þar til nú.

Hér er voða voða langur status varðandi málið sem ég kom fram með fyrir tveimur mánuðum um að starfsmenn hafi fengið...

Posted by Hildur Sverrisdóttir on 16. mars 2016

Á síðasta fundi mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar var lagt fram svar mannréttindaskrifstofu við fyrirspurn fulltrúa Sjá...

Posted by Halldór Auðar Svansson on 16. mars 2016

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×