Innlent

Borgin ætlar að bregðast við gagnrýni og þvo götur

Kristjana Björg Guðbrandsdóttir skrifar
Borgarbúar hafa kvartað undan miklum sandi á götum og stígum. Hafist verður handa við þvott næstu daga.
Borgarbúar hafa kvartað undan miklum sandi á götum og stígum. Hafist verður handa við þvott næstu daga. vísir/Heiða
Mikill sandur á götum veldur slysum á hjólreiðafólki og eykur hættu á svifryksmengun. Nú hefur verið ákveðið að falla frá þeirri ákvörðun að spara í þvotti á götum Reykjavíkurborgar og verður hafist handa á næstu dögum.

„Við endurskoðuðum þessa hugmynd um að spara húsagötuþvott,“ segir Hjálmar Sveinsson, borgarfulltrúi Samfylkingar og formaður umhverfis- og skipulagsráðs.

Framsókn og flugvallarvinir lögðu það til á borgarráðsfundi fimmta apríl að götur borgarinnar yrðu þrifnar með sama hætti og verið hefur undanfarin ár og gagnrýndu ákvörðun um að þvo ekki húsagötur borgarinnar sem var tekin af umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar til þess gæta aðhalds í rekstri borgarinnar. Sparnaðurinn var áætlaður þrjár milljónir króna.

Kvartanir bárust vegna ákvörðunarinnar frá hjólreiðafólki, gangandi vegfarendum og almennum borgurum. Kvartað var undan því að sandur á götum auki hættu á svifryksmengun. Þá ylli sandur á götum meiri slysahættu. Hjól rynnu til í sandinum eins og í hálku. Þá var almennt kvartað yfir óþrifnaði og borgarbúar bentu á að hluti af lögbundinni þjónustu sveitarfélaga væru þrif á götum.

„Það verður brugðist við þessu og það verður byrjað að sópa og þvo á mánudaginn. Það er byrjað núna að forsópa götur, þá er verið að taka upp það mesta áður en við gerum allt spikk og span,“ segir Jón Halldór Jónasson, upplýsingarfulltrúi Reykjavíkurborgar.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 27. apríl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×