Sport

Bolt og Gatlin forðast hvor annan á móti í næsta mánuði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Usain Bolt og Justin Gatlin unnu gull og silfur í tveimur greinum á HM.
Usain Bolt og Justin Gatlin unnu gull og silfur í tveimur greinum á HM. Vísir/Getty
Tvö einvígi spretthlauparanna Usain Bolt og Justin Gatlin í 100 og 200 metra hlaupi á HM í frjálsum íþróttum voru í hópi hápunkta heimsmeistaramótsins.

Það var beðið með mikilli eftirvæntingu eftir því hvort Usain Bolt tækist að halda sigurgöngu sinni áfram á stórmótum á móti hinum sjóðheita Gatlin sem var búinn að hlaupa best á árinu.

Justin Gatlin var hársbreidd frá sigri í 100 metra hlaupinu en Bolt tókst að vinna það og hafði síðan mikla yfirburði í 200 metra hlaupinu.

Þeir Bolt og Gatlin keppa báðir á Demantamótinu í Brussel í næsta mánuði en það verður þó ekki annað einvígi á milli þeirra.

Justin Gatlin keppir nefnilega bara í 100 metra hlaupinu á mótinu í Brussel á sama tíma og Usain Bolt keppir bara í 200 metra hlaupi ef þá heilsan leyfir.

Bolt hefur ekki skipulagt fleiri mót en það sem verður í Brussel.  „Hann mun keppa í Brussel ef heilsan verður góð. Þegar hann kemur til Evrópu í næstu viku þá sjáum við hvernig honum líður. Stóra málið er Ríó," sagði Ricky Simms, umboðsmaður Usain Bolt við Reuters.

Usain Bolt og Justin Gatlin voru þarna að mætast í fyrsta sinn frá árinu 2013 en þá vann Bolt á meðan að Gatlin endaði í 4. sæti. Bolt er búinn að vinna 8 af 10 hlaupum þeirra félaga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×