Innlent

Bóksalar hæðast að ríkisstjórninni

Birgir Olgeirsson skrifar
Anna Lea Friðriksdóttir er verslunarstjóri bókabúðar Máls og menningar.
Anna Lea Friðriksdóttir er verslunarstjóri bókabúðar Máls og menningar.
„Þetta er nú bara eitthvað djók,“ segir Anna Lea Friðriksdóttir, verslunarstjóri bókabúðar Máls og menningar við Laugaveg, um heldur skondna tilkynningu frá starfsfólki verslunarinnar til viðskiptavina vegna hækkunar á virðisauka á bókum.

Ábendingin sem blasti við viðskiptavinum frá starfsfólki bókabúðar Máls og menningar.
Er viðskiptavinum bókabúðarinnar bent á að þessi skattur hækki úr sjö prósentum í ellefu prósent og verið sé að vinna í verðbreytingum innanhúss. „En sem stendur eru margar bækur enn verðmerktar á lægra verði en þær eru á afgreiðslukössum,“ segir meðal annars í tilkynningunni og er viðskiptavinum bent á að þeir geti komi athugasemdum á framfæri á eftirfarandi netföng: sigmundur.david@hvaderadfretta.is, bjarni.ben@ihald.is og vanhaefrikisstjorn@althingi.is.

„Þetta er aðallega af því ég er svo súr. Ég sit hérna við tölvuna og er að breyta öllu verði í búðinni,“ segir Anna Lea. „Þetta er biturleiki minn að brjótast í gegn.“

Hún segir bóksala ekki ánægða með þessa ákvörðun stjórnvalda og ekki í takt við það sem þekkist í nágrannalöndunum. „Þar er fólk frekar að afnema virðisauka af bókum heldur en hitt. Þessi fjögurra prósenta hækkun á bókum er bara dropi í hafið hjá ríkissjóði held ég. Þannig að við erum ekki sátt við þetta. Þetta á mögulega eftir að stuðla frekar að fákeppni á íslenskum bókamarkaði sem var næg fyrir.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×