Skoðun

Blóð, Bush, Dóri, Davíð

Natan Kolbeinsson skrifar
Í vikunni fór fram landsfundur Breska Verkamannaflokksins í Brighton á Englandi. Á fundinum mun nýr leiðtogi flokksins, Jeremy Corbin, biðjast afsökunar á þætti Verkamannaflokksins í því að draga Bretland í stríð á fölskum forsendum.

Í sjálfu sér ætti það ekki að vera merkilegt fyrir okkur á Íslandi að stjórnmálaflokkur í Bretlandi biðjist afsökunar á því að draga þjóð sína í stríð. Þetta er samt merkilegt að því leyti að það er ekki einungis verið að biðjast afsökunar á því að hafa farið í stríð, heldur einnig á því að hafa tekið þátt í því að skapa það ástand sem ruddi brautina fyrir ISIS, ástandi sem hefur kostað þúsundir saklausra borgara lífið og gert þegar óstöðugt svæði í heiminum ennþá óstöðugra.

Þetta er líka merkilegt í ljósi þess að íslensk stjórnvöld hafa aldrei beðist afsökunar. Þau hafa aldrei beðist afsökunar á því að vera á lista viljugra þjóða sem studdu morð á saklausu fólki undir því yfirskini að finna gereyðingarvopn sem ekki voru til. Né heldur beðist afsökunar á því að hjálpa til við að skapa þetta ástand í Mið-Austurlöndum.  En þar fyrir utan höfum við Íslendingar eða þjóðin sem slík heldur aldrei verið beðin afsökunar því það voru ekki Íslendingar sem samþykktu að vera á lista viljugra þjóða og þjóðin fékk aldrei að taka þátt í umræðu um málið heldur var farið fram hjá þingi og þjóð við þessa ákvörðun og hún var tekin í reykfylltu bakherbergi Dóra og Davíðs.

Íslendingar hafa aldrei verið beðnir afsökunar á þeirri alvarlegu misbeitingu á valdi sem þarna átti sér stað og sem sverti mannorð Íslands um ókomna tíð. Aldrei sagði neinn af sér eins og sjálfstæðismenn heimta nú að borgarstjóri geri eftir að borgarstjórn samþykkti að mótmæla fjöldamorðum Ísraela á saklausum Palestínumönnum með því að sniðganga vörur frá Ísrael. Aldrei var Framsókn eða Sjálfstæðisflokki og þessum vinnubrögum þeirra líkt við nazisma eins og minnihlutinn í borgarstjórn kallar nú meirihlutann fyrir þá ákvörðun að standa með mannréttindum og frelsi.

Er kannski kominn tími á að við lokum þessum kafla í sögu Íslands með því að þeir flokkar og þeir menn sem báru ábyrgð á þessu biðji þjóðina afsökunar á því að hafa sniðgengið þing og þjóð í ákvörðun sinni?

Er ekki kominn tími til að ríkisstjórnin, sem skipuð er sömu flokkum og settu okkar á lista viljugra þjóða, biðjist afsökunar á því að eiga þátt í morðum á saklausu fólki? Er ekki líka kominn tími á það að við hættum að móta utanríkisstefnu okkar út frá peningum og förum að móta hana út frá mannúð og friði?

Höfundur er fyrrverandi formaður Hallveigar, Ungra Jafnaðarmanna í Reykjavík.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×