Innlent

Björninn verður felldur nálgist hann byggð

mynd/National Geographic/Paul Nicklen
„Það segir sig náttúrulega sjálft að við viljum ekki hafa svona óargardýr við byggð," segir Kristján Þorbjörnsson, yfirlögreglumaður á Blönduósi. Hann telur það vera augljósan kost að fella hvítabjörninn ef hann nálgist byggð.

Rætt var við Kristján í útvarpsþættinum Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag. Kristján hefur haft umsjón með leit að hvítabirni sem ferðamenn komu auga á við Geitafjall í gær.

„Það er engin ástæða til að hræðast, fólk verður einfaldlega að vera á varðbergi. Fara með gát og hafa augun opin," segir Kristján.

Síðasta sólarhring hafa lögreglumenn og þyrla Landhelgisgæslunnar leitað að birninum - sú leit hefur þó ekki borið árangur.

„Hvítabirnir eru óútreiknanleg dýr," segir Kristján. „Það væri í raun með ólíkindum ef honum hefur tekist að sleppa inn á land. Við munum auðvitað fylgjast með þessu áfram og efla leitina ef frekari vísbendingar berast."

„Þeir geta verið matarlausir í átta til níu mánuði. Það er ekki endilega hungrið sem gerir þá hættulega, mun frekar grimmdin og óútreiknanlegt eðli þeirra."

Aðspurður hvort að íbúar á svæðinu gangi nú um vopnaðir segir Kristján að svo sé ekki. „Það er ekkert hættuástand hér," segir Kristján og bendir á að ekkert nema stærri skotvopn dugi til að fella svo stóra skepnu.

Hægt er að hlusta á viðtalið við Kristján hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×