Innlent

Björgvin snýr aftur á föstudag

MYND/Pjetur

Björgvin G. Sigurðsson, fyrrverandi viðskiptaráðherra, mun taka sæti á Alþingi þegar þing kemur saman á föstudag. Björgvin staðfesti þetta við blaðamann Vísis í sms skilaboðum í gærkvöld.

Björgvin var viðskiptaráðherra í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar í aðdraganda að bankahruninu haustið 2008. Hann lét af embætti skömmu áður en slitnaði upp úr samstarfi flokkanna tveggja í ársbyrjun 2009. Hann var svo kjörinn aftur á þing um vorið.

Rannsóknarnefnd Alþingis komst að þeirri niðurstöðu að Björgvin hefði gerst sekur um vanrækslu. Þegar að skýrsla rannsóknarnefndarinnar kom út síðastliðið vor vék Björgvin sæti á Alþingi og sagðist ætla að gefa þingmannanefnd um rannsóknarskýrsluna svigrúm til að sinna sínum störfum. Alþingi hefur nú komist að þeirri niðurstöðu að Björgvin verði ekki ákærður fyrir brot gegn lögum um ráðherraábyrgð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×