Innlent

Björgunarsveitir fundu bónda ofkældan og örmagna

Gissur Sigurðsson skrifar
Bóndinn ætlaði að gá til hrossa í Hlíðardal á Vatnsnesi, en þegar hann kom ekki til baka á tilsettum tíma undir kvöld, voru björgunarsveitir kallaðar út til leitar.
Bóndinn ætlaði að gá til hrossa í Hlíðardal á Vatnsnesi, en þegar hann kom ekki til baka á tilsettum tíma undir kvöld, voru björgunarsveitir kallaðar út til leitar. Vísir/Vilhelm
Tveir björgunarsveitarmenn slösuðust við leit að týndum bónda norðan við Hvammstanga í gærkvöldi. Bóndinn fannst ofkældur og örmagna og mátti ekki tæpara standa að koma honum til bjargar.

Bóndinn ætlaði að gá til hrossa í Hlíðardal á Vatnsnesi, en þegar hann kom ekki til baka á tilsettum tíma undir kvöld, voru björgunarsveitir kallaðar út til leitar. Einnig var óskað eftir þyrlu Landhelgisgæslunnar, en þegar hún kom á svæðið höfðu björgunarmenn nýfundið bóndann og voru að flytja hann í sjúkrabíl, sem ók honum á heilsugæslustöðina á Hvammstanga.

Að sögn Gunnars Arnar Jakobssonar, formanns björgunarsveitarinnar Húna, var líkamshiti mannsins kominn niður í 30 gráður þannig að hann var verulega hætt kominn, en er nú á batavegi.

Rétt eftir að bóndinn fannst slösuðust svo tveir björgunarsveitarmenn á vélsleða, sem valt skammt frá brú í dalnum. Þar sem þyrlan var hvort eð er á svæðinu var ákveðið að flytja björgunarfólkið, karl og konu, með henni á slysadeild í Reykjavík til aðhlynningar og rannsókna og var karlmaðurinn útskrifaður í morgun, en konan verður jafnvel útskrifuð síðar í dag.

Þorsteinn G. Gunnarsson, talsmaður Landsbjargar, segir óalgengt að björgunarmenn meiðist við störf sín.

„Ástæðurnar eru kannski einkum vegna þess að við gerum ákveðnar öryggiskröfur til okkar fólk. Í þessum tilvikum er um að ræða þrautþjálfað lið sem hefur gengið í gegnum sína nýliðafræðslu og námskeið og kann vel til verka. Við setjum engan út í alvarlegar og hættulegar aðstæður,” segir Þorsteinn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×