Innlent

Björgunarsveitir farnar að rukka fyrir aðstoðina

Gissur Sigurðsson skrifar
Björgunarsveitir eru farnar að rukka fyrir aðstoð við ökumenn, sem ekið hafa inn á lokaða vegi í trássi við merkingar.

Þannig þurftu erlendir ferðamenn að greiða björgunarsveitarmönnum frá Kirkjubæjarklaustri 20 þúsund krónur fyrir aðstoð á veginum inn að Lakagígum í síðustu viku. Þeir höfðu ekið framhjá hliði með keðju, þar sem greinilega var tilkynnt að vegurinn væri lokaður. Þeir festu svo bíl sinn og urðu að kalla eftir aðstoð björgunarsveitar.

Að auki sektaði lögregla þá um fimm þúsund krónur fyrir að hafa ekki virt skiltið um lokun, en þeir sluppu naumlega við sekt fyrir utanvegarakstur, því bíllinn taldist á veginum, þar sem hann sat fastur. Þá hefði sektin orðið 200 þúsund krónur.

Að sögn Harðar Daða Björgvinssonar, formanns björgunarsveitarinnar Kyndils á Klaustri, innheimtir sveitin aðeins gjöld þegar ökumenn eru brotlegir. Þetta byrjaði í fyrravor, þegar sveitin var kölluð átta sinnum út á nokkrum dögum, til að aðstoða ferðamenn á Lakavegi, sem var lokaður.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×