Innlent

Björguðu fimmtíu köttum úr iðnaðarhúsnæði í Reykjavík

Atli ísleifsson skrifar
Lagt var hald á fimmtíu ketti á staðnum. Kettirnir voru heilbrigðisskoðaðir af dýralæknum og þurfti að lóga tveimur.
Lagt var hald á fimmtíu ketti á staðnum. Kettirnir voru heilbrigðisskoðaðir af dýralæknum og þurfti að lóga tveimur. Vísir/Getty
Starfsmenn Matvælastofnunar björguðu fimmtíu köttum úr iðnaðarhúsnæði í Reykjavík í síðustu viku. Köttunum var haldið við bágar aðstæður þar sem umönnun og þrifnaði var verulega ábótavant. Umráðamaður húsnæðisins var handtekinn.

Í tilkynningu frá Matvælastofnun segir að köttunum hafi nú verið komið fyrir hjá Dýrahjálp, í Kattholti og í Kisukoti þar sem þeim verður ráðstafað á ný heimili.

„Í kjölfar ábendingar um umfangsmikið kattahald í iðnaðarhúsnæði í Reykjavík hafði Matvælastofnun samband við umráðamann húsnæðisins. Umráðamaðurinn meinaði eftirlitsmönnum stofnunarinnar aðgang að staðnum. Matvælastofnun fékk dómsúrskurð til að framkvæma eftirlit sem fór fram í síðustu viku. Eftirlitið leiddi í ljós umfangsmikið kattahald við slæmar aðstæður og var tekin ákvörðun um vörslusviptingu í framhaldinu.

Vörslusvipting var framkvæmd með aðstoð lögreglu tveimur dögum síðar. Umráðamaður reyndist ósamvinnuþýður og var handtekinn af lögreglu í kjölfarið. Lagt var hald á 50 ketti á staðnum. Kettirnir voru heilbrigðisskoðaðir af dýralæknum. Lóga þurfti tveimur köttum að skoðun lokinni.

Þrjár vörslusviptingar gæludýra hafa verið framkvæmdar af Matvælastofnun í Suðvesturumdæmi síðasta árið.

Nánar er fjallað um málið á síðu Matvælastofnunar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×