Innlent

Bjarni reiknar með kosningum fljótlega eftir að fjárlagafrumvarp kemur fram í september

Heimir Már Pétursson skrifar
Fjármálaráðherra segir ekki standa til að selja hlut ríkisins í fjármálastofnunum fyrir kosningar. Hann vill hins vegar leggja fram fjárlagafrumvarp áður en þingi lýkur og reiknar með að kosið verði í október. Endanleg dagsetning liggi fyrir innan skamms.

Þingflokkur Samfylkingarinnar með formanninn í broddi fylkingar hefur lagt fram frumvarp á Alþingi sem tímabundið bannar ríkisstjórninni að selja hlut ríkisins í fjármálastofnunum. Árni Páll Árnason formaður Samfylkingarinnar sagði í hádegisfréttum Bylgjunnar að ríkisstjórninni væri ekki treystandi fyrir þessum málum.

Með þessu yrði heimild í fjárlögum þessa árs felld úr gildi til 1. nóvember. Bjarni Benediktsson forsætisráðherra segir ekki standa til að selja hlut ríkisins í fjármálastofnunum fyrir kosningar.

Bjarni segir ýmislegt þurfa að gerast áður en bankarnir verða seldir.
Aðstæður breyttust með Íslandsbanka

„Ég er nú nýbúinn að lýsa því yfir í þinginu að það standi ekki til að vinna að sölu bankanna eða fara í að framkvæma sölu bankanna fyrir kosningar. Þetta kom fram í síðustu viku en það þarf að koma fram tillaga frá mér. Kannski má segja að þetta frumvarp dragi þá fram að Samfylkingin vill selja bankana frá og með nóvember,“ segir Bjarni. En ef til vill vilji Samfylkingin  freista þess að komast til valda fyrst.

Áður en bankarnir verði seldir verði eigendastefna ríkisins til framtíðar að liggja fyrir og aðstæður hafi breyst eftir að Íslandsbanki komst í eigu ríkisins. Þetta muni taka nokkur ár og ekki gerast fyrir kosningar sem líklegast verði í október.

„Við höfum líka sagt að við viljum hlusta eftir sjónarmiðum og þetta myndi aðeins ráðast af framvindunni. Þá er ég ekki að tala um að þetta gæti hnikast um sex eða níu mánuði, heldur hvar inni í haustinu við ættum að stilla þessu. Miðað við hvenær þingið færi frá,“ segir fjármálaráðherra.

Hann sé talsmaður stjórnfestu. Fjárlagafrumvarpið sé í vinnslu og því eðlilegt að leggja það fram eins og lög geri ráð fyrir í byrjun september.

„Ég vil tala fyrir því að hlutirnir fari ekki allir úr skorðum þótt við séum að endurnýja umboð til þingsins. Það finnst mér mæla með því að við ljúkum þeirri vinnu og mælum fyrir fjárlagafrumvarpi. Síðan yrði gengið til kosninga skömmu síðar,“ segir Bjarni.

Ný ríkisstjórn hefði allt svigrúm til að breyta frumvarpinu eftir kosningar þótt tíminn verði naumur. Kjördagur ætti að liggja fyrir á næstu dögum.

Þannig að þú ert að reikna með að þetta ætti að liggja fyrir að minnsta kosti innan hálfs mánaðar?

„Ég er að reikna með því. En ég ætla líka að setja alla fyrirvara á það eins og maður vill gera. Þetta er ekki bara í mínum höndum. Maður vill leiða þetta fram í einhverju samtali,“ segir Bjarni Benediktsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×