Innlent

Bjarni Ben alveg grænn á toppi Strúts

Jakob Bjarnar skrifar
Bjarni sigraði Strút í morgun.
Bjarni sigraði Strút í morgun. Mynd/Twitter/Bjarni Benediktsson
Ekkert hefur náðst í Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins né Sigurð Inga Jóhannsson forsætisráðherra vegna hinna afdráttarlausu ummæla Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar þess efnis að ekkert liggi á kosningum fyrr en búið er að afgreiða kosningaloforðin.

Óhætt er að segja að allar fréttastofur landsins hafa reynt að ná tali af þeim Bjarna og Sigurði Inga. Samkvæmt þeim upplýsingum sem Vísir hefur eru þeir báðir utan þjónustusvæðis; Sigurður Ingi í hestaferð og Bjarni í fjallgöngu. Svo virðist sem þingflokkur Framsóknarflokksins standi með Sigmundi Davíð, samkvæmt eftirgrennslan Vísis í gær, og Gunnar Bragi Sveinsson hefur lýst yfir sinni afstöðu.

Höskuldur Þórhallsson hefur hins vegar sagt að einörð afstaða Sigmundar Davíðs hafi hleypt öllu í uppnám og geti hugsanlega orðið til þess að sprengja ríkisstjórnina í loft upp. Og víst er að það þarf tvo til að dansa tangó; Brynjar Níelsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins hefur lýst því yfir að þetta sé frágengið, með kosningarnar í haust.

Bjarni virðist nú vera kominn í netsamband því fyrir um tveimur tímum birti hann mynd af sér á toppi fjallsins Strúts. Hugsanlega geta pólitískir greinendur gert sér mat úr stuttum skilaboðum foringja Sjálfstæðisflokksins.

„Uppi á Strúti í grænu eins og Mælifellið.“

Ríkisráðsfundur verður haldinn á morgun, klukkan ellefu, sem er þá síðasti fundur Ólafs Ragnars Grímssonar fráfarandi forseta íslenska lýðveldisins; og því má gera ráð fyrir þessum foringjum ríkisstjórnarinnar í bæinn fyrr en seinna.


Tengdar fréttir

Skoðun formanns á kosningum skipti engu

Þó að formaður Framsóknar vilji fresta boðuðum kosningum í haust virðist það engu skipta. Forseti Alþingis segir þingrofsréttinn í höndum forsætisráðherra með samþykki forseta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×