Fótbolti

Birkir um markið: „Á eftir að minnast þess alla ævi"

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Birkir í leiknum í kvöld.
Birkir í leiknum í kvöld. vísir/getty
Birkir Bjarnason, fyrsti markaskorari Íslands á stórmóti í knattspyrnu karla, var gríðarlega stoltur í leikslok eftir 1-1 jafntefli gegn Portúgal.

„Þetta er bara frábært. Að fá svona byrjun er ómetanlegt og ég held að það hafi bara verið Íslendingar sem héldu að við gætum gert eitthvað í þessum leik. Maður er bara stoltur af svona úrslitum," sagði Birkir í leikslok.

„Maður er auðvitað gríðarlega stoltur að því að skora fyrsta markið, en maður er nánast stoltari hvernig við spiluðum."

„Við héldum bara áfram úr undakeppninni að spila gegn sterkum liðum og það er það sem þurfti til að fá stig gegn þessum liðum."

„Við erum búnir að spila marga æfingarleiki sem hafa ekki verið góðir, en að vera komnir á svona stórmót er allt annað en að vera spila æfingarleiki."

„Það er skrýtið að segja það, en þá verður það annað hugarfar og við spiluðum frábærlega í dag þrátt fyrir að þeir pressuðu okkur lengi og hart, þá spiluðum við frábæra vörn."

Með markinu í dag varð Birkir fyrstur til að skora á stórmóti Íslands í knattspyrnu karla og hann segir að sú minning muni lifa um alla ævi.

„Auðvitað. Ég er gríðarlega stoltur að hafa skorað þetta mark og á eftir að minnast þess alla ævi" sem fékk einnig fyrsta gula spjald Íslands:

„Mér fannst þeir eiga að fá fleiri gul en við, en þetta var frábært," sagði markaskorarinn að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×