Fótbolti

Bikarúrslitaleikurinn í Hollandi stöðvaður vegna brennandi blysa

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kolbeinn Sigþórsson.
Kolbeinn Sigþórsson. Vísir/Getty
Kolbeinn Sigþórsson er í byrjunarliði Ajax í úrslitaleik hollenska bikarsins á móti PEC Zwolle en leikurinn var stöðvaður eftir aðeins fimm mínútur vegna þess að stuðningsmenn Ajax-liðsins hentu brennandi blysum inn á völlinn.

Leik var haldið áfram eftir hálftíma pásu en hann fer fram á Kuip-leikvanginum sem er heimavöllur Feyenoord.

Ajax var komið í 1-0 í leiknum eftir glæsilegt mark frá Ricardo van Rhijn en fljótlega eftir það varð Bas Nijhuis, dómari leiksins að stoppa leikinn enda fullt af logandi blysum í vítateig Ajax.

Leikmenn liðanna voru í stórhættu enda virtist það ekki skipta stuðningsmenn Ajax máli þótt að leikmenn yrðu fyrir blysunum sem þeir köstuðu inn á grasið fyrir framan mark Ajax-liðsins.

Dómari leiksins stoppaði leikinn og leikmenn fóru til búningsklefa á meðan fundað var um framhaldið.

Edwin van der Sar, íþróttastjóri Ajax, biðlaði til stuðningsmanna Ajax að hætta að henda flugeldum inn á völlinn og varaði þá við að ef að þetta gerðist aftur myndi Ajax tapa leiknum. Leikurinn fór síðan aftur af stað eftir hálftíma stopp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×