Innlent

Bent þarf að greiða hálfa milljón í skaðabætur vegna líkamsárásar

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Árásin átti sér stað aðfaranótt 14. mars í fyrra.
Árásin átti sér stað aðfaranótt 14. mars í fyrra. Vísir
Leikstjórinn og rapparinn Ágúst Bent Sigurbertsson þarf að greiða Friðriki Rafni Larsen, stjórnarformanni ÍMARK, 488 þúsund krónur í skaðabætur vegna líkamsárásar á skemmtistaðnum Loftinu í Austurstræti í mars í fyrra.

Þá var Bent dæmdur í sextíu daga skilorðsbundið fangelsi og þarf því ekki að sitja inni nema hann gerist brotlegur á skilorðstímanum sem er tvö ár.

Bent játaði að hafa ráðist á Friðrik á skemmtistaðnum og slegið hann ítrekuðum hnefahöggum í andlitið. Hins vegar var deilt um afleiðingarnar fyrir dómi. Afleiðingar árásarinnar voru þær, að því er segir í ákæru, að Friðrik „hlaut ótilfært brot á vinstra nefbeini, bólgur og mar á nefi og augnsvæði og sprungna vör.“

Friðrik fór fram á fjórar milljónir króna í skaðabætur en fékk sem fyrr segir rúmlega tólf prósent af þeirri upphæð, tæpa hálfa milljóna króna.

Verið meira eins og „Jón Jónsson“

„Ég get kannski ekki sagt ítarlega frá því hvað gerðist en ég skeit í raun bara á mig. Ég gerði mistök og missti mig í fimm sekúndur og það mun draga dilk á eftir sér í töluvert lengri tíma en það,“ sagði Bent um líkamsárásina í útvarpsþættinum FM95Blö í apríl í fyrra.

Fjölmargir aðilar úr auglýsingabransanum voru saman komnir á Loftinu þetta kvöld að lokinni ÍMARK-hátíðinni sem haldin var í Háskólabíói. Fjölmenni var á staðnum og urðu margir vitni að árásinni.

„Fyrir þá ungu hlustendur sem eru að spá í því að kýla einhvern, ekki gera það. Það gefur lítið af sér og fokkar þér upp lengi. Verið meira eins og Jón Jónsson og minna eins og ég,“ sagði Bent.

Dómur var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 19. febrúar síðastliðinn en hann hefur af einhverjum ástæðum ekki verið birtur á vef dómstólsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×