Innlent

Bensínverðið heldur áfram að hækka - gæti farið í 300 krónur

Bensínverð heldur áfram að hækka, en Skeljungur hækkaði lítraverð á bensíni í 258 krónur í gær. Á innan við ári hefur vegalengdin sem bifreið fréttastofunnar kemst fyrir 5.000 krónur styst um fjörutíu kílómetra.

Ferð á bíltúr fréttastofunnar, miðað við kaup á bensíni fyrir fimm þúsund krónur, hefur aldrei verið styttri. Miðað er við að ekið sé bíl sem eyðir 9 lítrum á hundraði.

Fyrir 6 árum kostaði bensínlítrinn 102 krónur og dugðu 5000 krónur þá til að keyra 545 kílómetra eða lang leiðina til Egilstaða, alla leið í Möðrudalinn. Fall krónunnar hefur vitaskuld haft mikið um það að segja hvernig verðþróunin hefur verið.

Árið 2008 hafði bensínverð hækkað umtalsvert en þá var verðið um 150 krónur og því mögulegt að komast í miðjan Öxnadal á 5000 króna fyllingu. 1. apríl 2011, fyrir innan við ári, komumst við aðeins rúma 230 kílómetra, eða rétt í gegnum Blönduóss.

Miðað við stöðu mála nú, þá er tankurinn tómur við afleggjarann að Hvammstanga, eftir 193 kílómetra akstur.

Blikur eru á loft varðandi olíuverð á heimsmarkaði, en spár gera ráð fyrir að það geti hækkað enn meira og lítraverðið hér á landi verði þá nálægt 300 krónum.

Sjálfstæðismenn vilja að stjórnvöld opni augun fyrir þessum vanda og lækki álögur á olíu hið snarasta, til þess að lina þjáningar fyrirtækja og heimila.

Oddný G. Harðardóttir, fjármálaráðherra, segir hækkanirnar vissulega áhyggjuefni en segir erfitt að segja hvort skynsamlegt sé fyrir ríkið að bregðast við stöðunni með einhverjum hætti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×