Íslenski boltinn

Beitir fylgir Þorvaldi til Keflavíkur

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Beitir klæðist treyju Keflavíkur næstu tvö árin.
Beitir klæðist treyju Keflavíkur næstu tvö árin. vísir/ernir
Markvörðurinn Beitir Ólafsson hefur söðlað um og mun leika með Keflavík næstu tvö árin.

Beitir hefur varið mark uppeldisfélagsins HK undanfarin fjögur ár en hann hefur á þeim tíma aðeins misst af tveimur deildarleikjum.

Hjá Keflavík hittir Beitir fyrir Þorvald Örlygsson en hann þjálfaði HK 2014 og 2015. Kópavogsliðið endaði í 8. sæti 1. deildarinnar í fyrra.

Beitir mun berjast um markvarðastöðuna hjá Keflavík við hinn efnilega Sindra Kristinn Ólafsson sem lék 14 leiki með liðinu í Pepsi-deildinni í sumar. Keflvíkingar fengu aðeins 10 stig á síðasta tímabili og féllu úr Pepsi-deildinni eftir 12 ára samfellda dvöl þar.

HK hefur orðið fyrir mikilli blóðtöku í haust en liðið missti m.a. sinn aðalmarkaskorara, Guðmund Atla Steinþórsson, til Breiðabliks.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×