Íslenski boltinn

Guðmundur Atli á leið í Breiðablik

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Arnar Grétarsson er að fá framherja.
Arnar Grétarsson er að fá framherja. vísir/ernir
Guðmundur Atli Steinþórsson, sem spilað hefur með HK í 1. deildinni undanfarin þrjú ár, er búinn að semja við Pepsi-deildarlið Breiðabliks, samkvæmt heimildum Vísis.

Guðmundur Atli, sem er 28 ára gamall, skoraði 14 mörk í 22 leikjum í 1. deildinni á síðustu leiktíð og 10 mörk í 21 leik sumarið 2014.

Hann hefur einu sinni áður spilað í efstu deild, en Guðmundur Atli var á mála hjá Grindavík árið 2006 og spilaði þá fjóra leiki án þess að skora mark.

Eftir það fór hann til Fjarðabyggðar og svo í KFK, Ými og BÍ/Bolungarvík áður en hann fór aftur til HK þar sem hann hóf ferilinn og byrjaði að raða inn mörkum.

Arnar Grétarsson, þjálfari Breiðabliks, hefur verið lengi í framherjaleit, en eins og Vísir greindi frá fyrr í sumar er búist við því að Jonathan Glenn fari til Lilleström þegar tímabilinu lýkur í Noregi.

Þá er Bjarni Guðjónsson, þjálfari KR, búinn að staðfesta að Gary Martin verður áfram í Vesturbænum, en Englendingurinn var á lista hjá Blikum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×