Innlent

Beaty geti ekki hætt við kaupin á HS Orku

Hafsteinn Hauksson skrifar
Formaður bæjarráðs Reykjanesbæjar fær ekki séð að forstjóri Magma Energy geti hætt við kaupin á HS orku. Hann segir að ef ríkið ætli sér að grípa inn í viðskiptin muni Reykjanesbær kanna rétt sinn gagnvart hinu opinbera.

Financial Times greindi frá því í gær að Ross Beaty, forstjóri kanadíska orkufyrirtækisins Magma Energy, hótaði að fresta eða jafnvel hætta við kaup fyrirtækisins á HS Orku vegna pólitískrar óvissu í landinu. Ríkisstjórn landsins hefur lýst því yfir að hún sé staðráðin í að vinda ofan af einkavæðingu innan orkugeirans.

Böðvar Jónsson, formaður bæjarráðs Reykjanesbæjar, segir mikilvægt fyrir bæjarfélagið að af viðskiptunum verði. Fyrirtækið yfirtekur þá skuldabréf sem bærinn á og Geysir Green Energy hefur verið greiðandi að, en Böðvar segir að Magma sé ábyggilegri greiðandi en Geysir Green að mati Deloitte. Hann telur ekki að forstjóri Magma geti hætt við kaupin.

„Nei, ég get nú ekki séð að hann geti hætt við það. Auðvitað hlýtur hann samt að vera orðinn þreyttur á viðbrögðum og viðhorfum íslenskra stjórnvalda eins og komið er fram gagnvart þessu fyrirtæki sem er að reyna að fjárfesta hér í íslensku atvinnulífi og byggja upp atvinnu," segir Böðvar.

Böðvar telur þó frekar standa upp á Geysi Green Energy, sem er seljandi hlutarins, að leita réttar síns gagnvart Magma verði kaupunum rift að frumkvæði fyrirtækisins eins og Beaty hótar. Hins vegar muni Reykjanesbær kanna réttarstöðu sína gagnvart hinu opinbera, komi ríkisvaldið í veg fyrir söluna.

„Ef ríkið ætlar að grípa inn í þessi fullkomlega eðlilegu viðskipti sem fara fram samkvæmt íslenskum lögum og leikreglum þá mun Reykjanesbær auðvitað kanna rétt sinn gagnvart ríkinu og slíkum inngripum. Ég reikna með að hið sama eigi svo við um aðra sem seldu hlut sinn í HS orku með sama hætti, eins og Hafnarfjarðarbær og Orkuveita Reykjavíkur," segir Böðvar að lokum.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×