Innlent

Bauhaus opnar - ekki geymsla fyrir bíla útrásarvíkinga

Forsvarsmenn byggingarvöruverslunarinnar Bauhaus telja að loksins sé að rofa til í íslensku efnahagslífi. Þeir stefna að því að opna tuttugu og eitt þúsund fermetra verslun sína hér á landi næsta vor og hafa auglýst eftir starfsfólki.

Í Morgunblaðinu í dag auglýsir byggingarvöruverslunin Bauhaus eftir starfsfólki en þrjú ár eru síðan að til stóð að opna verslunina fyrst.

Þetta 21 þúsund fermetra verslunarhúsnæði Bauhaus við Vesturlandsveg hefur verið ein af táknmyndum hrunsins. Bygging húsins var langt komin haustið 2008 og til stóð að opna verslunina fyrir lok ársins. Strax eftir hrun ákveðið að slá opnuninni á fresta þegar ljóst var hversu djúp kreppan yrði.

Bauhaus er þýskt fyrirtæki og gáfu forsvarsmenn þess það út að þeir hefðu ekki hætt við heldur ætluðu þeir sér einungis að bíða þar til efnahagsástandið batnaði hér á landi. Þeir hafa fylgst vel með ástandinu síðan þá og eftir þriggja ár bið er það mat þeirra að nú sé að rofa til.

„Við teljum að efnahagsástandið sé að batna og á næstu einu til tveimur árum eigi það eftir að lagast enn meira," segir Halldór Óskar Sigurðsson, framkvæmdastjóri Bauhaus á Íslandi.

Ráða á sextíu til áttatíu starfsmenn og er gert ráð fyrir að starfsemin verði komin í fullan gang næsta vor.

„Við erum að tala í fyrsta lagi í apríl, það getur verið apríl eða maí. Við horfum til þess að vertíðin er að byrja þá og margir eru að hugsa um viðhald á húsum, sumarbústöðum og öllu því . Þannig að við teljum þennan tíma vera mjög góðan," segir Halldór Óskar.

Húsið hefur staðið autt síðustu þrjú ár en Halldór segir ýmsar sögur hafa verið í gangi á þeim tíma.

„Þetta hefur verið bara autt. Það hafa verið ýmsar sögusagnir í gangi varðandi geymslu á útrásarvíkingabílum og fangelsi og að til greina kæmi að flytja þetta í gámum til Evrópu. Þetta voru bara sögusagnir."

Hann segir nokkurn rekstarkostnað hafa verið af húsinu þessi ár sem hlaupi á milljónum. Um er að ræða eina stærstu verslun Bauhaus í Evrópu og verða fluttir til landsins á milli þrjú til fjögur hundruð fjörtíu feta gámar af vörum.

Halldór segir aldrei hafa verið ætlunin að hætta við. Það var bara spurning hvenær verslunin opnaði.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×