Fótbolti

Barcelona-menn í basli í Baskalandi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leikmenn Barcelona hópast í kringum dómarann í kvöld.
Leikmenn Barcelona hópast í kringum dómarann í kvöld. Vísir/Getty
Barcelona tapaði 2-1 í fyrri leik sínum á móti Athletic Bilbao í sextán liða úrslitum spænska Konungsbikarsins í kvöld.

Athletic Bilbao enduðu leikinn tveimur mönnum færri eftir að tveir leikmenn fengu sitt annað gula spjald með aðeins sex mínútna millibili undir lok leiksins. Bilbao liðið náði að halda út og landa sigri níu á móti ellefu.

Real Madrid hvíldi sína bestu sóknarmenn í sigrinum á Sevilla í gær en það þeir Lionel Messi, Luis Suarez og Neymar voru allir með Barcelona-liðinu í kvöld.

Athletic Bilbao komst í 2-0 á fyrstu 28 mínútum og þannig var staðan þar til að Lionel Messi minnkaði muninn í 2-1 á 52. mínútu með marki beint úr aukaspyrnu.

Aritz Aduriz (25. mínúta) og Inaki Williams (28. mínúta) skoruðu mörkin með aðeins þriggja mínútna millibili en Aduriz lagði upp seinna markið.

Raúl García fékk sitt annað gula spjald á 74. mínútu og Bilbao-menn voru því orðnir manni færri. Þeir urðu síðan níu á móti ellefu eftir að Ander Iturraspe fékk sitt annað gula spjald á 80. mínútu.  

Brasilíumaðurinn Neymar fiskaði þá báða útaf en hvorki hann né aðrir sóknarmenn Barcelona náðu að jafna leikinn á lokamínútunum.

Seinni leikur liðanna fer fram á Nývangi í næstu viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×