Viðskipti innlent

Baldur iðulega fullur og þörf á stærri ferju

Kristján Már Unnarsson skrifar
Eigendur Breiðafjarðarferjunnar Baldurs undirbúa nú kaup á helmingi stærri ferju frá Noregi, sem gæti leyst af núverandi skip síðar í sumar. Núverandi ferja hefur verið í áætlunarsiglingum milli Stykkishólms og Brjánslækjar undanfarin átta ár með viðkomu í Flatey en hún tekur 40 bíla í ferð.

Hún er sjöunda skipið sem ber heitið Baldur en sá fyrsti hóf siglingar um Breiðafjörðinn fyrir 90 árum. Ferjan flutti í fyrra um 55 þúsund farþega og tólf þúsund bíla og nú er svo komið að hún annar ekki lengur flutningum. 

Pétur Ágústsson, skipstjóri á Baldri og framkvæmdastjóri Sæferða, segir að iðulega séu biðlistar og frá því snemma í maí hafi verið mikið að gera og skipið oft fullt. Og það er greinilegt að ferjan nýtur vaxandi ferðamannastraums því þar sem við vorum að mynda komu skipsins til Brjánslækjar virtist okkur stór hluti farþeganna vera erlendir ferðamenn á leið að skoða Vestfirði.

Baldur að koma inn til Brjánslækjar á Barðaströnd.Stöð 2/Baldur Hrafnkell Jónsson.
Yfir vetrarmánuði eru flutningabílarnir áberandi og segir Pétur að vegna þeirra sé ferjan oft fullbókuð á veturna. Aukningin hafi verið meiri en menn hafi átt von á, ekki síst vegna erlendra ferðamanna. 

Margir hafa talið að eftir því sem vegirnir myndu batna um sunnanverða Vestfirði kæmi að því að ferjan yrði óþörf. En það virðist öðru nær. Bóndinn á Brjánslæk, Jóhann Pétur Ágústsson, sem jafnframt er hafnarvörður, telur að bættar vegasamgöngur, sérstaklega til norðurhluta Vestfjarða, muni jafnvel auka þörfina. 

Og nú er stefnt á stærra skip. Útgerð skipsins er í viðræðum um að kaupa helmingi stærri ferju frá Lófóten í Norður-Noregi sem tæki 60 bíla og vonast Pétur til að hún verði komin á Breiðafjörðinn í fyrri hluta ágústmánaðar. En þarf ríkissjóður að koma að kaupum á stærra skipi? 

„Nei, ekkert meira en er bara í dag. Ríkið kaupir af okkur ferðir á veturna að hluta en ekki á sumrin. Það þarf ekkert að breytast hvað það varðar,“ svarar Pétur Ágústsson.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×