Skoðun

Bækur eru betri fjárfesting en byssukúlur

Gréta Gunnarsdóttir skrifar
„Bækur eru betri fjárfesting en byssukúlur,“ sagði Nóbelsverðlaunahafinn Malala Yousafzai, nýlega á fundi í Ósló. Fundurinn fjallaði um mikilvægi menntunar í þeirri vegferð sem ríki heims hefja í september nk. þegar samþykkt verða ný þróunarmarkmið á leiðtogafundi Sameinuðu þjóðanna. Markmiðin eiga að taka gildi 1. janúar 2016 og þau á að framkvæma fyrir lok 2030. Markmiðin eru miklu víðtækari og metnaðarfyllri en fyrirrennarar þeirra, þúsaldarmarkmiðin frá árinu 2000.

Í fyrirliggjandi drögum er viðurkennt að útrýming fátæktar er stærsta áskorunin sem alþjóðasamfélagið stendur frammi fyrir og því fjallar fyrsta markmiðið um að útrýma fátækt.

Í drögunum er litið til þess að ójöfnuður fer vaxandi innan ríkja og milli ríkja og því ítrekað áréttað að markmiðin skuli ná til allra.

Ljóst er að fátækt verður ekki útrýmt ef ekki kemur til stórátaks í menntamálum um allan heim þar sem milljónir barna og ungs fólks hafa ekki aðgang að menntun í dag og hafi þau aðgang er menntunin sem þau fá oft mjög léleg. Því er í drögunum að fjórða þróunarmarkmiðinu, sem fjallar um menntun, ekki eingöngu lögð áhersla á að tryggja skuli jafnan aðgang að menntun heldur skuli einnig tryggja gæði og gildi menntunar. Þetta krefst m.a. aukinnar fjárfestingar í kennaramenntun.

Við Íslendingar höfum litið á það sem sameiginlega hagsmuni okkar að tryggja öllum jafnan aðgang að menntun. Er óskandi að við berum gæfu til að vera áfram sammála um mikilvægi þessarar sameiginlegu fjárfestingar í þessu litla þjóðfélagi. Það er líka óskandi að sú þrautaganga sem Malala gekk í gegnum vegna þess að hún leyfði sér að opna munninn og tala fyrir menntun stúlkna verði til þess að þeir sem hingað til hafa litið á menntamál sem „mjúk“ mál geri sér grein fyrir því að fjárfesting í menntun þarf að vera forgangsmál eigi að tryggja langvarandi öryggi og stöðugleika í heiminum.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×