Innlent

Bæjarstjóri lætur lagfæra kindahólf

Freyr Bjarnason skrifar
Landeigandinn Virgill Scheving Einarsson segir að kindur sleppi ítrekað úr hólfinu.
Landeigandinn Virgill Scheving Einarsson segir að kindur sleppi ítrekað úr hólfinu. Fréttablaðið/Valli
Ásgeir Eiríksson, bæjarstjóri í Vogum, segir að til standi að láta yfirfara hólf fyrir kindur til að tryggja að öryggismál séu í lagi á Reykjanesbrautinni.

„Þetta er að öllum líkindum á höndum sveitarfélagsins að annast þetta viðhald. Við erum ekkert að hlaupast undan neinu varðandi ábyrgð á því,“ segir Ásgeir, aðspurður.

Í Fréttablaðinu fyrir helgi kvörtuðu feðgar á Vatnsleysuströnd yfir því að kindur slyppu ítrekað úr hólfinu, sem ekki hefði verið haldið við í mörg ár. Þeir töldu Vegagerð Íslands bera ábyrgð á viðhaldinu en svo virðist sem yfirvöld í Vogum eigi að sjá um viðhaldið.

„Ég veit af þessum girðingum. Við höfðum fengið ábendingar um að sauðfé væri að valsa meðfram Reykjanesbrautinni, sem er alvarlegt mál. Við munum á næstunni gera viðeigandi ráðstafanir til að þessi mál verði í lagi,“ segir Ásgeir.

Nokkuð virðist vera á reiki hvort samningar séu í gildi um viðhald hólfsins. Einn samningur var gerður árið 1994, annar í kringum síðustu aldamót og svo ein samningsdrög til viðbótar árið 2008.

„Það eru alls konar flækjuatriði í þessu sem gerir það að verkum að ég vil skoða þetta mál heildstætt og eiga samtal við fjárbændur um hvað sé eðlilegt og hverjar skyldur aðila séu í þessu sambandi,“ segir Ásgeir. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×