Innlent

Bæjarfulltrúi frétti af mengun í bænum í fjölmiðlum

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Bæjarfulltrúi vill láta skoða upplýsingagjöf varðandi mengunarslys í fráveitu Kópavogs.
Bæjarfulltrúi vill láta skoða upplýsingagjöf varðandi mengunarslys í fráveitu Kópavogs. Fréttablaðið/Vilhelm
Pétur Hrafn Sigurðsson, bæjarfulltrúi Samfylkingar, gagnrýnir upplýsingaskort um mengun í fráveitukerfi Kópavogs fyrir mánuði.

„Vekur furðu að mengunarslys í fráveitu Kópavogs skuli ekki koma strax inn á borð bæjarráðs og að bæjarráðsmenn skuli þurfa að lesa um það í fjölmiðlum einum mánuði eftir að slysið átti sér stað,“ segir í bókun sem Pétur lagði fram á fundi bæjarráðs á fimmtudag.

Pétur vísar til þess að 27. janúar síðastliðinn „uppgötvaðist talsvert flæði sterkra leysiefna eða bensíns í hluta af fráveitukerfi Kópavogs,“ eins og segir í fundargerð heilbrigðiseftirlits sem kveðst hafa óskað eftir því við fjölda fyrirtækja við lögnina að kanna áfyllingar- og mengunarvarnabúnað og að meta birgðir sínar. Starfsmenn Kópavogsbæjar hafi skoða fjölmarga fráveitubrunna.

„Ekki var hægt að staðfesta uppruna mengunarinnar,“ er niðurstaðan. Var þetta talið alvarlegt mengunarslys.

ATH:Ekki er rétt sem fram kom í upphaflegri útgáfu fréttarinnar hér á Vísi að mengunin hafi orðið í Kópavogslæk heldur bárust mengunarefni í skolpkerfi bæjarins eins og nú stendur í fréttinni.

„Vart varð við mengun í skolpdælustöð á Kársnesi í Kópavogi og var tilkynnt um hana til réttmætra aðila, það er heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar og Kópavogs, sem hefur eftirlit með starfsemi fráveitukerfisins,“ segir í tilkynningu frá Kópavogsbæ.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×