Innlent

Auðvelda þarf börnum að sækja rétt sinn

Hrund Þórsdóttir skrifar
Ísland hefur ekki fullgilt nýja bókun við Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem gerir börnum kleift að leita réttar síns sé brotið á mannréttindum þeirra. Þó er þörf á umbótum hér á landi, segir umboðsmaður barna.

Í ár er aldarfjórðungur síðan Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna tók gildi og er hann orðinn útbreiddasti mannréttindasáttmáli heims. Um nokkurt skeið hefur staðið til að Sameinuðu þjóðirnar komi á fót leið fyrir börn til að leita réttar síns þegar brotið er á mannréttindum þeirra og nú í vikunni varð þessi vettvangur að veruleika með þriðju viðbótarbókun Barnasáttmálans um sjálfstæða kæruleið barna. „Það opnast möguleiki fyrir börn að sækja rétt sinn og foreldra líka. Það hefur verið erfitt í framkvæmd fyrir börn að sækja rétt sinn gagnvart réttarkerfum,“ segir Margrét María Sigurðardóttir, umboðsmaður barna.

Hefur þessu verið ábótavant hér á landi?

„Já, við höfum rætt þetta oft hjá embættinu, að það þurfi að auðvelda börnum að sækja rétt sinn,“ segir hún.

Þótt bókunin hafi nú tekið gildi innan mannréttindakerfis Sameinuðu þjóðanna, hefur meirihluti barna ekki enn aðgang að henni, en hvert ríki þarf að fullgilda bókunina innan sinnar lögsögu svo hún öðlist gildi fyrir börn í landinu. 10 ríki hafa gert það og 37 til viðbótar hafa skrifað undir og stefna að fullgildingu á næstunni. Ísland er ekki í þeim hópi, þrátt fyrir að Alþingi hafi lögfest sáttmálann í febrúar í fyrra. Raunar eru Finnar eina Norðurlandaþjóðin í hópnum. „Norðurlöndin hafa ekki verið leiðandi að þessu leiti, ekki gagnvart þessari bókun, þótt oftast séum við það,“ segir Margrét.

Yrði þetta mikilvægt skref í áttina að öflugri barnarétti hér á landi?

„Við erum leiðandi og viljum líta svo á og já, ég myndi segja það.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×