Skoðun

Auðlindir í eigu þjóðar

Eva Baldursdóttir skrifar
Auðlindir Íslands eru okkar þjóðararfur og hafa lengi verið undirstaða hagsældar og framfara þjóðarinnar. Verðmætin sem nýting auðlindanna skapar ræður miklu um lífskjör okkar og stendur undir stórum hluta samfélagslegrar þjónustu.

Umræðan um náttúruauðlindir í þjóðareign á sér langa sögu og byggir meðal annars á þeirri einföldu kröfu að þjóðin, sem eigandi auðlindanna, fái sanngjarna auðlindarentu fyrir sérleyfi til að nýta þær. Á undanförnum áratugum hafa verið gerðar sex tilraunir til að setja ákvæði um auðlindir í þjóðareign í stjórnarskrá.

Tvö heildstæð frumvörp til nýrrar stjórnarskrár hafa komið fram á lýðveldistímanum og bæði falið í sér auðlindaákvæði; frumvarp Gunnars Thoroddsen forsætisráðherra frá 1983 og frumvarp stjórnlagaráðs. Orðalag ákvæðisins í tillögum stjórnlagaráðs tryggir að aldrei skapist óafturkræfur einkaeignarréttur á auðlindum í þjóðareigu. Í ákvæðinu kemur m.a. fram að á grundvelli laga sé heimilt að veita leyfi til afnota auðlinda, gegn fullu gjaldi og til hóflegs tíma í senn. Fullt gjald vísar hér til markaðsvirðis en það eitt og sér er þungavigtarbreyting sem tryggir að auðlindir séu ekki boðnar á hrakvirði af hálfu stjórnvalda á hverjum tíma.

Rót vandans er að hér á landi höfum við ekki lokið því brýna verkefni að tryggja að sanngjarn hluti auðlindarentunnar renni til eiganda auðlindanna. Aflaheimildum sem nú er úthlutað undir markaðsvirði og magnsala raforku á of lágu verði felur í sér að auðlindarentunni er ráðstafað annað en til eigandans. Um er að ræða gífurleg verðmæti og í tímans rás hafa þeir sem hafa fengið úthlutað aðstöðu til að innheimta auðlindarentuna varist af hörku umræðu um sanngjarnari skiptingu. Þrátt fyrir þá andstöðu hafa 83% kjósenda lýst yfir stuðningi um ákvæði um þjóðareign auðlinda í stjórnarskrá í þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur stjórnlagaráðs. Núverandi skipan auðlindamála endurspeglar því ekki þjóðarviljann.

Auðlindamálin eru ekki aðeins eitt stærsta pólitíska mál samtímans, heldur einnig framtíðarinnar og komandi kynslóða. Áskorunin er að láta almannahag en ekki ríka einkahagsmuni stýra umræðunni um úthlutun sérleyfa til nýtingar auðlinda okkar og sanngjarna skiptingu auðlindarentunnar. Krefjumst þess að farið verði eftir þjóðarviljanum og leggjum þannig okkar af mörkum til að komandi kynslóðir fái notið hágæða almannaþjónustu og jafnra tækifæra – óháð efnahag.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×