Innlent

Atvinnuleysi kvenna vegna niðurskurðar

Snærós Sindradóttir skrifar
Atvinnuátaksverkefni á borð við Allir vinna snerust mörg hver um að fjölga störfum í byggingariðnaði. Iðnaðarmenn misstu vinnuna fljótlega eftir hrun en atvinnumál kvenna haldast ekki í hendur við uppgang í einkageiranum nú.
Atvinnuátaksverkefni á borð við Allir vinna snerust mörg hver um að fjölga störfum í byggingariðnaði. Iðnaðarmenn misstu vinnuna fljótlega eftir hrun en atvinnumál kvenna haldast ekki í hendur við uppgang í einkageiranum nú. Fréttablaðið/Vilhelm
Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra hefur óskað eftir því að Vinnumálastofnun fari í saumana á nýjum upplýsingum sem Fréttablaðið birti á mánudag sem sýna að langtímaatvinnuleysi er mest í hópi kvenna yfir fimmtugu.

Jafnframt segir hún að vinna standi yfir við gerð frumvarps sem meðal annars eigi að banna mismunun á vinnumarkaði á grundvelli aldurs.

„Reynsla Evrópuþjóða sem hafa innleitt þessar reglur hefur sýnt að flest málin sem koma upp þar sem reynir á þessa löggjöf eru vegna mismununar á grundvelli aldurs. Það koma líka upp mál vegna mismununar á grundvelli annarra þátta en langalgengust er mismunun á grundvelli aldurs.“

Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherraFréttablaðið/Vilhelm
Hún segir að nú þegar atvinnuleysi fari minnkandi verði að skoða hvers vegna ákveðnir hópar sitji eftir og nái sér ekki jafn vel á strik og aðrir. 

„Karlar á Íslandi eru líklegri til að starfa í einkageiranum en konur eru líklegri til að starfa í opinbera geiranum. Þar er mikið aðhald og þar verður áfram mikið aðhald.“

Undir þetta tekur Karl Sigurðsson, sérfræðingur hjá Vinnumálastofnun. Hann segir að uppgangur í einkageiranum geti ef til vill skýrt það hvers vegna konur hafi setið eftir á atvinnuleysisskrá.

Aðspurður segir hann ástæðu atvinnuleysis kvenna þó ekki vera að þau atvinnuátaksverkefni sem ráðist var í eftir hrun hafi verið of karllæg og ekki höfðað til kvenna. 

„Við vitum þó að karlar tóku frekar þátt í þeim en konur tóku frekar þátt í námstengdum úrræðum,“ segir Karl. 

Ríflega fimm hundruð konur yfir fimmtugu eru skilgreindar langtímaatvinnulausar. 42 prósent þeirra kvenna sem eru atvinnulausar hafa verið það í meira en eitt ár, eða 333 talsins. 

Eygló segir að stjórnvöld verði að skoða hvað hægt sé að gera fyrir þennan hóp. 

„Ég mun hafa samband við Landssamband eldri borgara og óska formlega eftir samstarfi hvað þetta varðar. Ég hef nú þegar tekið málið upp líka við forstjóra Vinnumálastofnunar. Bæði þarf að skoða hópinn betur og huga að því hvað við gætum hugsanlega gert og gæti skýrt þennan mun.“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×