Innlent

Athyglisverð bók á borði Höskuldar: „Þetta er jarðsprengjusvæði sem hann er á karlinn“

Birgir Olgeirsson skrifar
Bókina Erfið samskipti mátti sjá á borði Höskuldar Þórhallssonar sem er á útleið sem þingmaður Framsóknarflokksins.
Bókina Erfið samskipti mátti sjá á borði Höskuldar Þórhallssonar sem er á útleið sem þingmaður Framsóknarflokksins. Vísir/Ernir/Stefán
„Það er alltaf góðs viti að menn fletti upp og velti fyrir sér hvernig er best að takast á við þetta,“ segir vinnustaðasálfræðingurinn Eyþór Eðvarðsson um Höskuld Þórhallsson, þingmann Framsóknarflokksins, en við eldhúsdagsumræður á Alþingi í gær mátti sjá á borði Höskuldar bókina Erfið samskipti.

Bókin er eftir þau Douglas StoneBruce Patton og Sheila Heen sem eru öll kennarar við Harvard-háskólann í Bandaríkjunum en hún er sögð henta þeim sem daglega reyna að sneiða hjá erfiðum samskiptum, bæði í einkalífi og starfi.

Katrín Júlíusdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, deildi mynd af bókinni á Facebook í gærkvöldi þar sem hún sagði hana vera á borði sessunaut síns sem er Höskuldur:

Jóhann Ásgrímsson þýddi bókina sem var gefin út af Veröld í fyrra en Jóhann ákvað ásamt útgefandanum að gefa öllum þingmönnum eintak af bókinni. Í umsögn um þessa sjálfshjálparbók er því haldið fram að margir forðist að vekja máls á því sem þeim finnst óþægilegt en slík samtöl séu hins vegar þau þýðingarmestu sem við eigum.

„Í þessari áhugaverðu bók er að finna aðgengilegar og velígrundaðar leiðir til að taka þátt í erfiðum samtölum með það að markmiði að finna lausnir sem allir geta verið sáttir við,“ segir í umsögninni um þessa bók.

Á útleið

Höskuldur er á útleið sem þingmaður Framsóknarflokksins eftir slæmt gengi í prófkjöri flokksins í Norðausturkjördæmi þar sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður flokksins, hlaut yfirburðakosningu. Sagði Höskuldur ástæðuna fyrir því vera að hann hefði ekki trú á framhaldinu hjá flokknum.

Sjá einnig: Ekki allir sáttir við niðurstöðuna á kjördæmaþingi Framsóknarmanna í gær

Vísir hefur ítrekað reynt að ná í Höskuld í dag en án árangurs. Líklega er ekki tilefni til að lesa of mikið í þá staðreynd að Höskuldur var með bókina á borði sínu í sal Alþingis í gær. Má þó velta fyrir sér hvort Höskuldur sé að undirbúa erfitt samtal áður en hann lætur af þingmennsku.

Mikil ólga hefur verið í Framsóknarflokknum undanfarið vegna formannskjörsins á flokksþingi Framsóknar um komandi helgi þar sem Sigmundur Davíð og Sigurður Ingi Jóhannsson sækjast eftir að leiða flokkinn. Hefur Sigurður Ingi verið sakaður um svik og baktjaldamakk og ásakanir gengið á milli þeirra sem styðja Sigmund Davíð og þeirra sem styðja Sigurð Inga.

Líkt og fyrr segir telur Eyþór vinnustaðasálfræðingur það vera góðs viti að menn lesi sér til og reyni að fræðast þegar þeir eru í erfiðum aðstæðum.

Auðvelt að klúðra ágreiningi

„Það er bara þannig að þegar menn lenda í ágreiningi þá er auðvelt að klúðra honum. Það er komin spenna í hlutina og tilfinningar og margt getur farið úrskeiðis. Það er góðs viti að fletta aðeins upp og staldra við velta fyrir sér hvaða skref á að taka. Það er auðveldast að vera reiður og sár en að geta tekið rétt skref í erfiðum aðstæðum er alltaf góðs viti,“ segir Eyþór.

Höskuldur hefur sjálfur lýst stöðu sinni innan Framsóknarflokksins sem nokkuð erfiðri, honum hafi verið hafnað í prófkjöri og hann hafi hreinlega ekki trú á framhaldinu með Sigmund Davíð í fyrsta sætinu í sínu kjördæmi.

„Þetta er jarðsprengjusvæði sem hann er á karlinn en það er ekkert auðveldara en að vera reiður og pirraður. Það að staldra við og fletta upp er bara gott skref og fær hann plús hjá mér fyrir það, svo lengi sem hann var ekki að lesa bókina á sama tíma og hann átti að vera að hlusta á ræðu þingmanna,“ segir Eyþór léttur í bragði.

Hægt er að hlusta á þýðandann Jóhann Ásgrímsson tala um bókina hér fyrir neðan:


Tengdar fréttir

Höskuldur tekur ekki sæti á lista

Höskuldur Þórhallson, þingmaður Framsóknarflokksins, mun ekki taka sæti á lista Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×