Sport

Ástralskur krikketspilari fékk kúluna í höfuðið og lést

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Phillip Hughes.
Phillip Hughes. Vísir/Getty
Ástralski krikketspilarinn Phillip Hughes lést í nótt af sárum sínum eftir að hafa fengið krikketkúlu í höfuðið í leik Suður-Ástralíu og Nýja Suður-Wales á þriðjudaginn.

Þetta er mikil sorg í allri Ástralíu sem og innan krikketheimsins vegna þessa skelfilega slyss en Phillip Hughes var þarna eins óheppinn og hægt er að vera.

Krikketleikmenn spila með hjálma en Phillip Hughes fékk kúluna fyrir aftan annað eyrað þar sem hjálmurinn varði hann ekki. Þetta er afar sjaldgæft sem betur fer en aðeins er vitað um eitt annað svona slys í sögu krikketíþróttarinnar.

Kastari í krikket nær að kasta kúlunni á um 150 kílómetra hraða og hún er gerð úr mjög hörðu efni sem þýðir að höggið var mikið.

Phillip Hughes hefði orðið 26 ára gamall á sunnudaginn kemur. Hann missti meðvitund við höggið og kom aldrei aftur til meðvitundar. Hann var fluttur á sjúkrahús þar sem hann lést tveimur dögum síðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×