Umfjöllun, viðtöl og myndir: Ísland - Búlgaría 74-77 | Strákarnir klaufar gegn Búlgörum

Stefán Árni Pálsson skrifar
Haukur Helgi Pálsson keyrir upp að körfu Búlgara.
Haukur Helgi Pálsson keyrir upp að körfu Búlgara. vísir/anton
Ísland tapaði fyrir Búlgaríu, 77-74, í undankeppni HM 2019 í Laugardalshöllinni í kvöld. Liðið var lengi vel með fín tök á leiknum en hentu honum frá sér í fjórða leikhlutanum.

Martin Hermannsson var atkvæðamestur í liði Íslands með 21 stig en Jakob Örn Sigurðarson skoraði 18 stig í leiknum.

Það var hrein unum að fylgjast með íslensk landsliðinu í byrjun leiks og þá sérstaklega með Martin Hermannssyni og Tryggva Snæ Hlinasyni. Martin stjórnaði leik íslenska liðsins og herforingi og Tryggvi Snær varði þrjú skot í fyrsta leikhlutanum og var frábær í vörninni. Búlgararnir þurftu að hafa mikið fyrir hverju einasta stigi og gekk sóknarleikur íslenska liðsins töluvert betur til að byrja með. Staðan var því 21-17 eftir fyrsta leikhlutann og hefði íslenska liðið getað verið með stærra forskot, með smá heppni.

Í öðrum leikhluta hélt baráttan og harkan áfram í íslenska liðinu og voru þeir einfaldlega líkamlega sterkari en búlgörsku landsliðsmennirnir. Þegar leikhlutinn var hálfnaður var staðan 35-23 fyrir Ísland og útilitið nokkuð bjart. Búlgarar komu til baka undir lok fyrri hálfleiksins og létu íslensku strákana hafa vel fyrir sér með því að keyra alltaf inn í teiginn. Það hafði það í för með sér að menn fóru að sanka að sér villum. Tryggvi var kominn með þrjár villur í hálfleik og þurfti að hafa sig hægan í upphafi síðari hálfleiksins og það sama má segja um Martin Hermannsson. Staðan í hálfleik var 45-35.

Búlgarar mættu grimmir út í síðari hálfleikinn og fóru strax að minnka muninn og það mjög markvist. Þegar lítið var eftir af þriðja leikhlutanum var staðan 52-51 fyrir Íslandi og Búlgararnir að hóta þeim hvítklæddu að komast yfir í leiknum. Sem betur fer héldu íslensku landsliðsmennirnir út og hleyptu þeim ekki fram úr sér. Staðan fyrir lokafjórðunginn var 61-53.

Íslenska liðið var með frumkvæðið í byrjun fjórða leikhluta en gestirnir ætluðu sér að ná í sigur í Laugardalshöllinni í gær. Þegar tvær og hálf mínúta var eftir af leiknum komust Búlgarar yfir 67-66 og var mikil spenna í leiknum út leiktímann. Svo fór að lokum að Búlgaría vann leikinn, 77-74.

Það skrifast á algjört kæruleysi hjá íslenska liðinu þar sem liðið hafði stóran hluta af leiknum fín tök á honum. Það þurfti bara að sigla sigrinum í hús en það gekk því miður ekki. Búlgarska liðið sýndi aftur á móti gríðarlegan karakter, gafst aldrei upp og það sem var mikilvægast að þeir hleyptu íslenska liðinu aldrei of langt í burtu.

Jakob: Hefðum átt að klára þennan leik mikið fyrr
Jakob skoraði 18 stig í kvöld.vísir/anton
„Við leiddum nánast allan leikinn og stjórnuðum honum vel,“ segir Jakob Örn Sigurðarson, leikmaður Íslands, svekktur eftir tapið gegn Búlgörum í undankeppni HM í kvöld.

„Við missum þá framúr okkur undir lokin og það verður að segjast alveg eins og er að sóknarleikur okkar var alls ekki nægilega góður síðustu mínúturnar. Við vorum staðir og töpuðum boltanum á meðan þeir voru að spila sína sókn og setja niður mikilvæg skot.“

Jakob segir að það sem tapaði leiknum fyrir íslenska liðið var að það hefði átt að klára hann mikið mun fyrr í leiknum.

„Við bara gáfum þeim séns að komast inn í leikinn í lokin. Við verðum að fara venja okkur á það að halda áfram þegar við náum forystu. Við hefðum átt að halda áfram að spila okkur leik, skjóta þristum, spila hratt og hægja ekki á leiknum eins og við gerðum í fjórða leikhlutanum.“

Jakob segir að íslenska liðið geti vel unnið það búlgarska á útivelli.

„Ég sá það vel á vellinum í kvöld að við erum betra liðið og sýndum það oft í kvöld. Við förum bara í útileikinn gegn þeim og vinnum þá með meira en þremur stigum.“

Martin: Þetta verður erfið nótt
Martin Hermannsson skoraði 21 stig.vísir/anton
„Við þurftum að vinna þennan leik, vorum með hann í höndunum í 38 mínútur en klúðrum þessi bara í lokin,“ segir Martin Hermannsson, stigahæsti leikmaður íslenska liðsins í kvöld. Martin skoraði 21 stig.

„Þetta verður erfið nótt og næstu nætur bara. Við verðum að setjast vel yfir þennan leik og fara yfir það af hverju þeir komast alltaf svona mikið inn í leikinn eftir að við náum upp fínu forskoti.“

Martin segist hafa liðið vel nánast allt leikinn.

„Mér fannst við einhvern veginn alltaf vera með þetta í okkar höndum. Þeir setja svo mörg erfið þriggja stig skot undir lokin og þetta átti greinilega bara að detta með þeim í kvöld. Við tökum bara útileikinn á móti þeim með allavega fimm stigum, ég lofa því.“

Anton Brink, ljósmyndari Fréttablaðsins og Vísis, var í Laugardalshöllinni og tók myndirnar hér að neðan.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira