Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Víkingur Ó. - ÍBV 0-3 | Annar sigur Eyjamanna í röð | Sjáðu mörkin

Þór Símon Hafþórsson skrifar
Eyjamenn gerðu góða ferð til Ólafsvíkur og unnu 0-3 sigur á Víkingum í fyrsta leik 4. umferðar Pepsi-deildar karla í dag.

ÍBV er því með sex stig eftir fjórar umferðir en Víkingur Ó. er með þrjú stig.

Afhverju vann ÍBV?

Þeir voru einfaldlega betri, snarpari og grimmari á öllum vígstöðum vallarins. Eyjamenn settu tóninn strax í upphafi með stórsókn á fyrstu mínútu. ÍBV gáfu allt í þetta í dag og áttu stigin þrjú fyllilega skilið.

Sindri Snær Magnússon, fyrirliði ÍBV, talaði um að það hefði verið gott að fá vatnsgusuna í andlitið eftir 5-0 tapið gegn Stjörnunni. Það virðist hafa verið rétt hjá honum. Sex stig úr fyrstu tveimur leikjum liðsins eftir tapið í Garðabæ hafa fylgt á eftir. Miðað við þessa frammistöðu er alls engin krísa í Vestmanneyjum.

Hverjir stóðu upp úr?

Þú hefðir þurft að stinga puttum upp í eyru og loka augunum til að taka ekki eftir Arnóri Gauta Ragnarssyni í dag en hann kom inn á þegar um korter var eftir af leiknum og gerði sér lítið fyrir og skoraði tvö.

Einig var undirritaður mjög hrifinn af Alvaro Montejo í sókn Eyjamanna en hann skoraði eitt af mörkum liðsins og reyndist varnarmönnum Ólafsvíkinga erfiður fyrir.

Felix Örn Friðriksson átti tvær stoðsendingar og Sindri Snær var sterkur á miðjunni. Í raun og veru væri hægt að telja upp allt liðið.

Hvað gekk illa?

Liði Ólafsvíkur náði sér aldrei á strik sem verða að teljast vonbrigði eftir sterkan útisigur á Grindvíkingum í síðustu umferð.

Guðmundur Steinn Hafsteinsson verður þó að teljast sem skúrkur leiksins en hann var rekinn útaf snemma í seinni hálfleik er hann fékk sitt annað gula spjald. Burtséð frá því hvort það hafi verið réttur dómur eða ekki (mér sýndist þetta vera rétt) þá var hann eins og tifandi tímasprengja inn á vellinum.

Á gulu spjaldi braut hann trekk í trekk af sér klaufalega og í raun með hreinum ólíkindum að Ejub, þjálfari Ólafsvíkinga, hafi ekki verið búinn að taka hann útaf áður en sprengjan loksins sprakk.

Tvo rauð spjöld á Víking Ó. í síðustu tveimur leikjum Pepsi deildarinnar. Þetta þarf að laga.

Hvað gerist næst?

ÍBV fær skagamenn í heimsókn sem verður að teljast sem annar sex stiga leikur hjá liðinu en spili þeir svona aftur ættu þeir ekki að vera í vandræðum með að þræða í gegnum gatasigtið sem við köllum vörn Skagamanna.

Víkingur Ó. fer í bæinn og mætir vængbrotnu liði Blika. Spurning hvort það verði kominn nýr maður í stjórasætið þar áður en þessi tvö lið leiða saman hesta sína. Ejub er strax kominn í þá stöðu að hann sárvantar þrjú stig ef hann ætlar sér ekki að missa af lestinni.

Einkunnir:

Víkingur Ó.: Cristian Martínez 6, Alexis Egea 4, Ignacio Heras 5, Tomasz Luba 6, Guðmundur Steinn Hafsteinsson 2, Alonso Sanchez 5, Alfreð Már Hjaltalín 5, Pape Mamadou Faye 4, Gunnlaugur Hlynur Birgisson 5, Kenan Turudija - 6, Eric Kwakwa 6  Varamenn: Þorsteinn Már Ragnarsson 5 (57’),Hörður Ingi Gunnarsson 5, Mirza Mujcic 4 (73’)

ÍBV: Halldór Páll Geirsson 8, Matt Garner 8, Hafsteinn Briem 8, Avni Pepa 7, Pablo Punyed 7, Sindri Snær Magnússon 7, Jónas Þór Næs 7, Viktor Adebahr 7, Sigurður Grétar Benónýsson 7 (73’), Alvaro Montejo 8 (82’) Felix Örn Friðriksson 8. Varamenn: Arnór Gauti Ragnarsson 8, Kaj Leo Bartalsstovu 7

Kristján: Stjörnutapið var ákveðin vekjaraklukka

Kristján Guðmundsson, þjálfari ÍBV, var ánægður með sína menn eftir sigurinn en liðið byrjaði af miklum krafti.

„Færið strax í fyrstu sókn gaf tóninn en mér fannst við taka of langan tíma til að skora annað og þriðja markið en á meðan við héldum hreinu þá skipti það kannski engu mál.“

ÍBV tapaði stórt á dögunum gegn Stjörnunni, 5-0, og héldu margir að útlitið væri svart í Vestmanneyjum en tveir sigrar hafa fylgt fast á eftir í Pepsi deildinni og enn í bikarnum. Kristján segir að 5-0 tapið hafi hreinlega vakið upp Eyjamenn.

„Sá leikur var ákveðin vekjaraklukka sem og það skipti miklu máli að við lærðum af honum og vonandi erum við búnir að því. Við erum búnir að fara inn í þessa tvo leiki mjög markvisst og halda hreinu.“

Kristján hitti á rétta skiptingu er hann setti Arnór Gauta Ragnarsson inn á er korter var eftir en hann skoraði tvö mörk og endanlega kláraði leikinn fyrir Eyjamenn.

„Sú skipting heppnaðist vel og svo var það Kaj sem lagði upp þriðja markið þannig skiptingarnar heppnuðust vel upp hjá okkur í dag.“

Ejub: Brotin tönn en fær samt varla aukaspyrnu

Ejub Purisevic, þjálfari Víking Ó., var svekktur í leikslok og sagði sína menn hefðu átt að nýta færi betur í fyrri hálfleik sem hefði getað komið þeim í forystu.

Hann byrjaði svo að ræða rauða spjaldið sem Guðmundur Steinn Egilsson fékk í upphafi seinna hálfleiks.

„Þetta var klárlega brot en hvort þetta var nóg fyrir annað gult spjald og rautt get ég ekki dæmt um. En mér finnst mjög sérstakt að sjá framherjann minn fá rautt spjald og þurfa að fara til tannlæknis með brotna tönn en hafa samt varla fengið eina aukaspyrnu í leiknum.“

Þegar hann var spurður nánar út í ástand Guðmunds var hann ósáttur við að framherjinn hafði varla fengið aukaspyrnu í leiknum miðað við ástandið á honum.

„Hann er allavega hjá tannlækni. Hann lenti í mörgum samstuðum í dag og hvort þau hafi öll verið lögleg verður dómarinn að dæma um.“

Hann vildi þó ekki mótmæla rauða spjaldinu sjálfu neitt sérstaklega.

„Ég er ekki réttur maður til að dæma um þetta.“

Sindri Snær: Þeir misskildu mig eitthvað

Sindri Snær Magnússon átti góðan leik á miðju ÍBV, og var af sjálfsögðu sáttur með sigurinn og sérstaklega eftir langt ferðalag.

Sindri vakti mikla athygli eftir tapið gegn Stjörnunni þar sem hann virtist taka því full létt af margra mati en hann sagði að það hefði verið gott að fá jafn stóran skell í upphafi móts.

„Þeir misskildu mig eitthvað held ég en í stað þess að tapa 3-2, 4-1, 4-2 eða eitthvað álíka þá fengum við alvöru skell og höfum unnið vel úr því. Tveir sigrar í deildinni og einn í bikarnum.“

Hann gefur lítið fyrir spár um fallbaráttu og segist markmiðið vera að færa sig ofar á töfluna í sumar en undanfarinn ár.

Arnór Gauti: Kláraðu bara þennan helvítis leik

Arnór Gauti átti alvöru innkomu í dag og skoraði tvö mörk eftir að hafa komið inn sem varamaður á síðasta korteri leiksins.

„Kristján sagði við mig áður en ég fór inn á að klára bara þennan helvítis leik og ég gerði það bara.“

Arnór var mjög móður er undirritaður tók hann á spjall enda var hann byrjaður í þrekæfingum strax að leik loknum ásamt stórum hluta eyjaliðsins.

„Það er helvítis harka í Eyjum. Maður er bara sendur á sprettinn strax eftir leik. Bara verið að halda manni í formi.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira