Handbolti

Kiel gerði engin mistök | Bjarki Már með 100% nýtingu í sigri Berlínarrefanna

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Bjarki Már nýtti öll fimm skot sín gegn Lemgo.
Bjarki Már nýtti öll fimm skot sín gegn Lemgo. vísir/afp
Þrjú lið eru efst og jöfn á toppnum í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta.

Flensburg og Rhein-Neckar Löwen unnu bæði sína leiki í gær og Kiel gaf ekkert eftir þegar liðið tók á móti Magdeburg í dag.

Kiel vann fjögurra marka sigur, 28-24, en þetta var fjórtandi sigur strákanna hans Alfreðs Gíslasonar í 15 deildarleikjum í vetur.

Niclas Ekberg var markahæstur í liði Kiel með sjö mörk. Domagoj Duvnjak kom næstur með fimm mörk.

Bjarki Már Elísson skoraði fimm mörk fyrir Füchse Berlin sem vann tveggja marka sigur á Lemgo á heimavelli, 26-24.

Berlínarrefirnir tryggðu sér sigurinn með því að skora tvö síðustu mörk leiksins. Petar Nenadic skoraði það fyrra og Bjarki Már gulltryggði svo sigur liðsins þegar hann skoraði 26. markið. Bjarki Már nýtti öll fimm skotin sín í leiknum.

Füchse Berlin, sem Erlingur Richardsson þjálfar, er í 4. sæti deildarinnar með 24 stig, fjórum stigum á eftir Flensburg, Kiel og Löwen.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×