Íslenski boltinn

Umfjöllun, viðtöl, einkunnir og myndir: Fylkir - Víkingur Ó. 2-1 | Fylkir opnaði fallbaráttuna upp á gátt

Guðmundur Marinó Ingvarsson á Flórídana-vellinum skrifar
Staða Fylkismanna er ekki jafn svört og fyrir nokkrum vikum.
Staða Fylkismanna er ekki jafn svört og fyrir nokkrum vikum. vísir/ernir
Fylkir galopnaði fallbaráttuna með 2-1 sigri á Víkingi Ólafsvík í 18. umferð Pepsi-deildar karla í fótbolta í kvöld á heimavelli.

Ernir Eyjólfsson, ljósmyndari Fréttablaðsins og Vísis, var á Flórídana-vellinum í dag og tók meðfylgjandi myndir.

Jose Sito kom Fylki yfir eftir strax á áttundu mínútu leiksins eftir hornspyrnu Víkings Ólafsvíkur. Sonni Nattested skallaði út úr teignum á Alvaro Montejo sem sendi strax inn fyrir vörn Víkings. Sito var kominn einn í gegn þegar hann átti enn nokkra metra í miðjulínuna, svo framarlega var vörn Víkings.

Staðan í hálfleik var 1-0 fyrir Fylki sem tvöfaldaði forystuna á 64. mínútu þegar Arnar Bragi Bergsson skoraði úr víti.

Varamaðurinn Pape Mamadou Faye minnkaði muninn sjö mínútum fyrir leikslok en nær komst Víkingur ekki þrátt fyrir hetjulega baráttu.

Á síðustu mínútu leiksins fékk Emir Dokara sitt seinna gula spjald og Fylkir aðra vítaspyrnu sem Cristian Marintez varði.

Fylkir er nú aðeins stigi á eftir ÍBV og tveimur stigum á eftir Víkingi Ólafsvík og er því aðeins einum leik frá að  koma sér úr fallsæti í fyrsta sinn frá því mjög snemma móts.



Af hverju vann Fylkir?

Fylkir hefur gæði fram á við sem geta skipt sköpum í fallbaráttunni sem er framundan. Liðið refsaði Víkingi fyrir fáránlega stöðu á vellinum í fyrsta markinu þegar Sito var kominn einn í gegn nokkrum metrum áður en hann kom að miðjulínunni.

Sito hafði hraða til að klára hlaupið og getu til að senda boltann í markið með varnarmenn Víkings á hælunum upp rúmlega hálfan völlinn.

Fylkir lék ekki vel sóknarlega í fyrri hálfleik og Víkingur var mun meira með boltann. Fylkir var aftur á móti betri aðilinn í seinni hálfleik og þá sérstaklega framan af og komst í 2-0 eftir besta kafla sinn í leiknum.

Þegar uppi er staðað verður þó að segjast að Fylkir hafi haft heppnina með sér. Pétur Guðmundsson dómari hafði tvö tækifæri til að dæma víti á Fylki seint í leiknum.



Hvað gekk illa?

Pétur Guðmundsson dómari dæmdi aukaspyrnu þegar Pape Mamadou Faye var að því er virtist felldur innan teigs. Þetta gerðist í stöðunni 2-0 en Pape skoraði nokkrum mínútum síðar.

Aftur var Pétur miðpunktur athyglinnar en þegar boltinn fór í hönd Ásgeirs Barkar Ásgeirssonar miðjumanns Fylkis innan teigs í uppbótartíma. Pétur virtist setja upp í sig flautuna en hætti við að dæma. Rétt á eftir fór Fylkir í skyndisókn þar sem Emir Dokara fékk sinn annað gula spjald fyrir að brjóta á Víði Þorvarðarsyni og víti dæmt. Fylkir skoraði ekki úr því víti en í stað þess að fá víti og eiga möguleika á að jafna missir Víkingur varnarmann sinn öðru sinni í leikbann í mikilvægum leikjum í fallbaráttunni.



Þessir stóðu upp úr

Færeyski varnarmaðurinn Sonni Ragnar Nattestad var frábær í vörn Fylkis í kvöld. Hann skallaði allt sem að honum kom frá og var mjög öruggur á boltann þegar það átti við.

Kantmaðurinn Alvaro Montejo var einnig mjög öflugur í liði Fylkis og lét mikið til sína taka. Líflegur leikmaður sem mikið var brotið á.

Cristian Martinez markvörður Víkings átti nokkrar ansi laglega vörslur í leiknum. Hann varði frábært skot Arnars Braga Bergssonar af löngu færi einkar glæsilega og seinni vítaspyrnu Arnars Braga undir lokin einnig.



Hvað gerist næst?

Þó Fylkir sé enn í fallsæti er liðið líklegra en ÍBV og Víkingur Ólafsvík til að halda sæti sínu í deildinni eins og leikir þessara liða hafa spilast að undanförnu.

Víkingur hefur aðeins náð í tvö stig í síðustu níu leikjum sínum en liðið mætir Víkingi Reykjavík í næstu umferð heima á fimmtudaginn áður en liðið sækir Þrótt heim í umferðinni á eftir. Annan þessara leikja verða Ólsarar að vinna, að lágmarki, til að halda sæti sínu í deildinni.

Fylkir fær FH í heimsókn í næstu umferð en þar á eftir sækir liði Víking heim áður en það fær Þrótt í heimsókn.

Bæði Víkingur Ólafsvík og Fylkir horfa til þess að ÍBV á eftir að leika við Stjörnuna, Breiðablik, Val og FH í von sinni um að einn sigur gæti dugað til að senda Eyjamenn niður.

Hvað sem gerist í síðustu fjórum umferðunum þýða úrslit kvöldsins á Floridanavellinum í Árbænum að fallbaráttan er galopin og æsispennandi.

Hermann: Mér er drullusama

„Þetta eru frábær þrjú stig, lífsnauðsynlega. Við vitum það allir og vissum fyrir leikinn,“ sagði Hermann Hreiðarsson þjálfari Fylkis eftir sigurinn í kvöld.

„Þetta er einn af mörgum úrslitaleikjum og var sérstaklega mikilvægur. Við höfum í tíu síðustu leikjum verði í úrslitaleikjum. Þetta snérist um að ná í þessi þrjú stig, hvernig sem það væri,“ sagði Hermann.

Fylkir var yfir í hálfleik þrátt fyrir að hafa oft leikið betur í sumar en liðið gerði fyrstu 45 mínúturnar í kvöld.

„Við skorum snemma. Við spiluðum ekki frábæran fótbolta í fyrri hálfleik en við verjumst vel og refsum vel. Við náðum ekki að halda í boltann eins og við vildum en ég er til í að spila frekar lélega leiki og vinna, það er kominn tími á það.

„Við erum búnir að vera fínir í mörgum leikjum í sumar og ekki fá stig. Að fá stigin skiptir öllu.“

Fylkir lék mun betur í seinni hálfleik og átti mjög góðan kafla sem annað markið kemur upp úr.

„Í seinni hálfleik róuðum við okkur niður á boltann og það kom aðeins meiri hreyfing á liðið. Það var lykilatriði. Það lá á okkur eftir markið í fyrri hálfleik,“ sagði Hermann.

Fylkir er nú aðeins einum leik frá því að koma sér úr fallsæti. Staða sem liðið hefur ekki verið í síðan mjög snemma móts.

„Við höfum alltaf haldið trúnni og stemningunni innanbúðar en það er búið að afskrifa okkur held ég 22 í sumar.

„Þetta er ekki búið, það er fjórir leikir eftir en þetta var risa skref,“ sagði Hermann sem sagði Fylki hafa átt inni heppni frá því fyrr í sumar undir lok leiksins þegar Víkingur virtist eiga að fá vítaspyrnu.

„Þetta var ekki einu sinni aukaspyrna þannig að það er aukaatriði,“ sagði Hermann um atvikið þegar Pape fékk aukaspyrnu þegar brotið virtist vera innan teigs. Hann viðurkenndi að boltinn fór í höndina á Ásgeiri Berki innan teigs undir lokin aftur á móti.

„Hann fer örugglega í höndina á honum en það er ekki alltaf hendi víti. Hann fer í höndina en svo er það matsatriði. Við höfum átt fullt af þeim í sumar þannig að mér er alveg drullusama,“ sagði Hermann.

vísir/ernir
Ejub: Ætla ekki að ræða þessi mál

Ejub Purisevic þjálfari Víkings Ólafsvíkur vildi ekki tjá sig um umdeild atvik undir lok leiksins í kvöld þegar Víkingur virtist eiga að fá vítaspyrnu.

„Ég ætla ekki að ræða þetta, þetta er orðið fyndið,“ sagði Ejub sem hefur áður í sumar látið skoðun sína á dómgæslu í leikjum Ólsarar í ljós.

„Ég hef reynt einu sinni eða tvisvar og benda á og það varð allt vitlaust. Ég er sorgmæddur en ætla ekki að ræða þessi mál.

Víkingur kom með lið sitt í bæinn í gær og gisti í bænum í nótt. Ejub vildi þó ekki meina að liðið hafi nálgast leikinn á nokkurn annan hátt en aðra leiki í sumar.

„Við lögðum þetta upp eins og hvern annan leik. Við spiluðum vel allan leikinn og vorum miklu betra liðið og sköpuðum fullt í leiknum.

„Ég var mjög ánægður með liðið og flesta leikmenn í kvöld,“ sagði Ejub en hann var þó óánægður með stöðu leikmanna í fyrsta marki Fylkis þegar allt liðið var vel inni á vallarhelmingi Fylkis að markverðinum undanskildum.

„Þetta var ekki lagt upp. Þetta voru mistök og á ekki að vera svona. Markið kemur eftir mistök. Við stjórnuðum þessum leik og áttum að vinna hann,“ sagði Ejub.

Þorsteinn: Þetta er fáránlegt

„Mér fannst við spila þennan leik vel og vorum miklu betri allan tímann. Síðan kemur Pétur og rænir þessu með ákvörðunum sínum í lokin,“ sagði Þorsteinn Már Ragnarsson leikmaður Víkings Ólafsvíkur.

„Það er ótrúlegt að hann hafi ekki dæmt víti. Ég er ekki vanur að tala mikið um dómara en þetta er fáránlegt.

„Hann tekur flautuna og ætlar að setja hana upp í kjaftinn á sér, síðan tekur hann hana niður og þorir ekki að dæma víti,“ sagði Þorsteinn um atvikið þegar boltinn fór í hönd Ásgeirs Barkar undir lokin.

„Síðan er Pape langt inni í teig þegar hann dæmir aukaspyrnu. Þetta er fáránlegt. Þetta ræður úrslitum. Við hefðum átt að fá tvö víti og hefðum getað komist yfir í leiknum,“ sagði Þorsteinn.

Ásgeir Börkur: Eigum mjög mikið inni

Ásgeir Börkur Ásgeirsson var fullkomlega hreinskilinn þegar hann var spurður út í það hvort boltinn hafi farið í höndina á honum undir lok leiksins.

„Hann fór í höndina á mér en mér finnst við eiga mjög mikið inni. Mér gæti ekki verið meira sama. Það er mikið sem hefur ekki dottið með okkur í sumar og það datt með okkur í kvöld.

„Ég skammast mín ekkert fyrir að segja það,“ sagði Ásgeir Börkur um atvikið umdeilda.

Ásgeir Börkur hefur auga með Pape Mamadou Faye.vísir/ernir
Þorsteinn umkringdur varnarmönnum Fylkis.vísir/ernir
Hermann og félagar eiga góða möguleika á að bjarga sér frá falli.vísir/ernir
Ejub segir Agli Jónssyni til.vísir/ernir



Fleiri fréttir

Sjá meira


×