Körfubolti

Martin í liði umferðarinnar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Martin er stigahæsti leikmaður Íslands í undankeppni EM 2017 með 17,5 stig að meðaltali í leik.
Martin er stigahæsti leikmaður Íslands í undankeppni EM 2017 með 17,5 stig að meðaltali í leik. vísir/ernir
Martin Hermannsson var valinn í úrvalslið annarrar umferðar undankeppni EM 2017 af FIBA fyrir frammistöðu sína gegn Kýpur í gær.

Martin átti frábæran leik á Kýpur, og þá sérstaklega í seinni hálfleik.

Martin var stigahæstur á vellinum með 21 stig en 15 þeirra komu í seinni hálfleik. Íslenska liðið var undir í hálfleik, 32-31, en í seinni hálfleik stigu strákarnir á bensíngjöfina og keyrðu yfir Kýpverja. Ísland vann leikinn á endanum með 11 stigum, 64-75.

Íslenska liðið spilaði sérstaklega vel í 3. leikhluta sem það vann með 10 stigum. Martin skoraði sex síðustu stig Íslands í leikhlutanum.

Auk þess að skora 21 stig tók Martin sex fráköst og gaf sex stoðsendingar. Þá var skotnýtingin til mikillar fyrirmyndar. Martin hitti úr sjö af 12 skotum sínum utan af velli og nýtti öll fimm vítin sín.

Ísland er með fullt hús stiga í A-riðli eftir fyrstu tvo leikina í undankeppninni. Næsti leikur liðsins er gegn Belgíu í Antwerpen á miðvikudaginn.


Tengdar fréttir

Nærri því fullkomin byrjun

Íslenska karlalandsliðið í körfubolta byrjaði undankeppni EM 2017 með stæl í Laugardalshöllinni í gærkvöldi þegar það lagði Sviss með 16 stiga mun, 88-72. Þjálfarinn Craig Pedersen var ánægður með sigurinn en vill að liðið bæti sig fyrir næsta leik. Leiðin á EM byrjar vel en næsti leikur er á Kýpur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×