Fótbolti

Enginn náði Hannesi - varði flest skot allra á EM 2016

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hannes Þór Halldórsson.
Hannes Þór Halldórsson. Vísir/Getty
Hannes Þór Halldórsson, markvörður íslenska landsliðsins, varð flest skot á EM í Frakklandi sem lauk í gær með úrslitaleik Portúgals og Frakklands.

Rui Patrício, markvörður Portúgala átti mjög góðan leik í úrslitaleiknum á Stade de France og varði oft frá frönsku leikmönnunum í leiknum en hann var samt langt frá því að ná okkar manni.

Hannes varði alls 27 skot í leikjunum fimm eða 5,4 skot að meðaltali í leik. Hannes var á endanum með sjö fleiri varin skot en næstu menn sem voru þeir Rui Patrício hjá Portúgal og Thibaut Courtois hjá Belgíu.

Framganga Hannesar í íslenska markinu átti mikinn þátt í árangri liðsins enda bjargaði hann mörgum stigum í riðlakeppninni og átti einnig flottan leik á móti Englandi í sextán liða úrslitunum.

Hannes fékk alls á sig 9 mörk í mótinu og varði því 75 prósent skota sem á hann komu. Fimm af þessum níu mörkum komu á móti Frökkum í átta liða úrslitunum.

Nú verður fróðlegt að sjá hvort frammistaða Hannesar á mótinu í Frakklandi komi honum í úrvalslið Evrópumótsins sem verður tilkynnt í dag.

Flest varin skot á EM 2016:

1. Hannes Halldórsson, Íslandi 27

2. Rui Patrício, Portúgal 20

2. Thibaut Courtois, Belgíu 20

4. Lukasz Fabianski, Póllandi 19

5. Gábor Király, Ungverjalandi 17

5. Michael McGovern, Norður-Írlandi 17

7. Matús Kozácik, Slóvakíu 16

8. Igor Akinfeev, Rússlandi 14

8. Darren Randolph, Írlandi 14

8. Hugo Lloris, Frakklandi 14

8. Volkan Babacan, Tyrklandi 14

8. Wayne Hennessey, Wales 14

8. Andriy Pyatov, Úkraínu 14

Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×