Íslenski boltinn

Umfjöllun, viðtöl og myndir: Stjarnan - Þór/KA 4-0 | Harpa sökkti Þór/KA

Tryggvi Páll Tryggvason á Samsung-vellinum skrifar
Harpa var með þrennu.
Harpa var með þrennu. vísir/anton
Harpa Þorsteinsdóttir skoraði þrennu í góðum sigri Stjörnunnar gegn Þór/KA á heimavelli í kvöld í fyrstu umferð Pepsi-deildar kvenna í fótbolta.

Anton Brink, ljósmyndari Fréttablaðsins og Vísis, var á Samsung-vellinum og tók meðfylgjandi myndir.

Harpa kom heimastúlkum yfir með glæsilegu marki á 25. mínútu í ansi bragðdaufum fyrri hálfleik.

Seinni hálfleikur var mun betri og Sandra María Jessen var nálægt því að jafna fyrir gestina strax í upphafi seinni hálfleiks. Stjarnan slökkti þó allar vonir gestanna með öðru marki Hörpu á 54. mínútu.

Kolbrún Tinna Eyjólfsdóttir skoraði þriðja mark Stjörnunnar á 66. mínútu eftir vel útfærða hornspyrnu. Harpa setti svo þrennunna með ágætu marki af stuttu færi á 89. mínútu eftir góðan undirbúning Öglu Maríu Albertsdóttur.

Stjörnustúlkur hefja því Íslandsmótið á 4-0 sigri í leik sem einkenndist af nokkrum vorbrag.

Mörkin úr leiknum má sjá hér að neðan.



Af hverju vann Stjarnan?

Stjarnan virtist vera reiðubúnari í þennan leik en andstæðingarnir í kvöld. Þær voru öruggar í öllum sínum aðgerðum, hvort sem það var í vörn eða sókn. Það munar einnig um það hafa að leikmann eins og Hörpu Þorsteinsdóttur í liðinu sem skoraði þrennu.

Leikurinn var nokkuð jafn fyrstu 20 mínúturnar þangað til Harpa skoraði sannkallað draumamark og eftir það sökk lið Þórs/KA til botns og náði engri fótfestu það sem eftir lifði leiks.

Stjarnan gekk á lagið og alltaf var Harpa á réttum stað í framlínunni til þess að klára ágætar sóknir Stjörnunnar sem nýttu kantana afar vel í leiknum.

Þessar stóðu upp úr

Harpa Þorsteinsdóttir er án efa maður leiksins enda skoraði hún þrennu. Í raun stóð allt Stjörnuliðið sig vel í leiknum en þar ber helst að nefna, fyrir utan Hörpu, kantmennina Donnu Key Henry og Þórdísi Hrönn Sigfúsdóttur sem fóru illa með bakverði Þórs í kvöld.

Mænan í liði Stjarnar var einnig mjög öflug. Þær Ásgerður Stefanía Baldursdóttir og Lára Kristín Pedersen voru líkt og klettar á miðjunni enda stoppuðu flestir sóknartilburðir gestanna á þeim tveim.

Miðverðirnir tveir í Stjörnunni áttu einnig góða spretti í þau örfáu skipti sem Þór/KA fór í sókn. Þær Anna María Baldursdóttir og Kolbrún Tinna Eyjólfsdóttir, sem skoraði gott mark, lokuðu á framherja Þórs/KA sem varð til þess að þær gátu reynt fátt annað en máttlítil langskot.

Hvað gekk illa?

Sóknarmenn Þórs/KA hafa átt betri daga og voru þær mjög einangraðar fram á við. Þær fengu litla hjálp en voru að sama skapi ekki í takt við leikinn og sjaldan mættar inn í teig til þess að taka á móti fyrirgjöfum.

Þá var miðja Þórs/KA tekin í nefið af miðju Stjörnunnar sem gerði það að verkum að Söndrurnar tvær í framlínu Þórs þurftu að koma djúpt niður á völlinn til þess að koma sér í takt við leikinn.

Norðanstúlkur virkuðu hálfryðgaðar hér í kvöld og þurfa að hrista sig betur saman fyrir næsta leik. Það er þó ef til vill ekki skrýtið að smá ryð sé á leik liðsins enda mikið af nýjum leikmönnum í liði Þórs/KA og viðbúið að þær þurfi nokkurn tíma til þess að stilla saman sína strengi.

Hvað gerist næst?

Stjörnustúlkur fá afar gott veganesti inn í næstu umferð og sýndu þær mátt sinn hér í kvöld. Miklu er búist við af þeim, þeim er spáð öðru sæti og stefna þær án vafa á titilinn í haust.

Leikurinn í kvöld var akkúrat af því tagi sem meistaraefni skila af sér í fyrstu umferð og verður fróðlegt að sjá hvort þær haldi sér við efnið á erfiðum útivelli á Selfossi í næstu umferð.

Deildin er sterk í sumar og ætli Þór/KA stúlkur sér að blanda sér í topppbaráttuna þurfa þær að gera betur á móti liðunum sem búast má við að verði við topp deildarinnar í sumar. Það var augljóst í kvöld að leikmenn liðsins þurfa að spila sig betur saman og ættu þær að fá gott tækifæri til þess í næsta leik gegn nýliðum ÍA á heimavelli.

Jóhann Kristinn: „Það á eftir að herða nokkrar skrúfur“

Jóhann Kristinn Gunnarsson var ekki alveg nógu sáttur við sína leikmenn eftir tapið í kvöld en er þó vongóður um að Þór/KA muni takast að vera í toppbaráttunni í sumar.

„Við vorum slakari á flest öllum sviðum leiksins í kvöld,“ segir Jóhann Kristinn. „Við vorum að flýta okkur og í öðrum tilféllum héldum við að við hefðum allan heimsins tíma. Við áttum að gera betur á öllum sviðum og við vitum það.“

Það hafa gerðar talsverðar breytingar á leikmannahóp Þórs/KA frá síðasta tímabili. Inn hafa m.a. komið þrjár landsliðskonur frá Mexíkó sem spiluðu allar í kvöld. Jóhann segir að liðið beri þess merki að breytingar hafi verið gerðar á leikmannahóp liðsins.

„Það á eftir að herða nokkrar skrúfur. Það er margt að gerast hjá okkur og leikmennirnir eru að kynnast hverjum öðrum, bæði inn á vellinum sem og utan. Við verðum klárar í næsta leik,“ segir Jóhann sem er vongóður um að liðinu takist að blanda sér í toppbaráttuna í Pepsi-deild kvenna sem hefur ekki verið jafn sterk í þó nokkurn tíma með komu leikmanna eins og Margréti Láru Viðarsdóttur til landsins á nýjan leik.

„Við ætlum okkur að berjast á toppi deildarinnar,“ segir Jóhann Kristinn sem á von á því að deildin verði jafnari en oft áður.

„Það verður allavega ekki hægt að setja neitt á Lengjuna fyrir leikina í sumar. Á toppnum verða Stjarnan, Valur, Breiðablik og svo munu ÍBV, Fylkir og við blanda okkur í þetta. Liðin eiga eftir að taka stig af hverju öðru.“

Ólafur Þór: Ánægðir með að hafa Hörpu í okkar liði

Ólafur Þór Guðbjörnsson var að vonum sáttur með sína leikmenn sem byrjuðu tímabilið vel. Harpa Þorsteinssdóttir fór af stað með hvelli og skoraði þrennu, þjálfarinn var að vonum ánægður með framherjann sinn.

„Harpa er einn besti framherji landsins. Við erum mjög glaðir með að hún byrji svona vel og það er frábært að hafa hana í okkar liði,“ segir Ólafur sem tekur þó skýrt fram að það séu fleiri í liðinu en bara Harpa.

„Liðsheildin okkar gerði gæfumuninn í kvöld. Það var vel lagt fyrir Hörpu í kvöld og það er frábært að sjá leikmennina vinna svona vel saman,“ segir Ólafur.

Lið Stjörnunnar hefur breyst nokkuð frá síðasta tímabili en af þeim ellefu leikmönnum sem hófu úrslitaleik Borgunarbikarsins á síðasta tímabili eru aðeins fjórir eftir í ár. Stjörnustúlkur renna því nokkuð blint í sjóinn fyrir þetta tímabil en Ólafur var ánægður með nýju leikmennina og þá sérstaklega Önnu Maríu Baldursdóttur sem átti góðan leik í hjarta varnarinnar hjá Stjörnunni.

„Anna María var til dæmis bara að lenda fyrir stuttu og hún var að spila með stelpum sem hún hefur aldrei spilað með. Við höfum misst miðverði á hverju ári og það er gaman að sjá aðra stíga svona upp,“ segir Ólafur.

Stjörnunni er spáð öðru sæti á tímabilinu en Ólafur reiknar með að deildin verði mjög jöfn í ár og því er hann sérstaklega ánægður með sigurinn í fyrsta leik.

„Þetta er sterk deild og við þurfum að stíga fast til jarðar og við kláruðum þetta vel núna. Það eru mörg önnur lið með sama markmið og við, þetta verður erfitt sumar og gott að byrja á sigri.“

vísir/anton
vísir/anton
vísir/anton



Fleiri fréttir

Sjá meira


×