Viðskipti innlent

Landsbankinn seldi 25% í Bláa Lóninu án auglýsingar

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Eignarhlutur Landsbankans í Bláa Lóninu hf. var seldur án auglýsingar en SpKef sem rann inn í bankann, leysti til sín fjórðungshlut í fyrirtækinu eftir hrun. Félagið sjálft keypti þennan hlut til baka. Þá voru stofnendur Bláa Lónsins með ólögmæt gengislán og fengu hálfan milljarð leiðréttan vegna þeirra hjá Landsbankanum.

Bláa Lónið er einn vinsælasti ferðamannastaður á Íslandi. 2011 var besta ár í sögu lónsins þegar tæplega 459 þúsund manns heimsóttu lónið, en félagið skilaði 3,5 milljóna evra hagnaði eftir skatta.

SpKef leysti til sín fjórðungshlut í Bláa Lóninu hf. eftir hrun sem rann síðan inn í ríkisbankann Landsbankann við sameiningu SpKef og bankans. Í stað þess að auglýsa þennan hlut og selja í opnu söluferli seldi Landsbankinn félaginu sjálfu hlutinn fyrir óuppgefið verð. Bláa Lónið hf. keypti semsagt fjórðungshlut í sjálfu sér og færði niður hlutafé á móti.

„Hluthafar og félagið sjálft áttu kauprétt að þessum hlut sem SpKef hafði eignast á sínum tíma. Og félagið nýtti þennan kauprétt fyrir hönd hluthafa," segir Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa Lónsins hf. um ástæður þessa.

Hvaða verð var greitt fyrir hlutinn? „Verðið miðaðist við forsögu máls sem laut að því að SpKef og Bláa Lónið voru knúin til að breyta láni sem félagið var með hjá sparisjóðnum í hlutafé og þetta lán var endurgreitt með vaxtaálagi til baka."

En hvaða verð var greitt? „Ég bara man það ekki," segir Grímur.

Forsagan sem Grímur vitnar til er að eftir hrun gerði þýski bankinn HSH Nordbank, sem einnig átti kröfur á Bláa Lónið hf. kröfu um að skuld félagsins við SpKef yrði breytt í hlutafé.

Félagið Hvatning ehf. átti 23,8 prósenta hlut í Bláa Lóninu en félagið er í eigu stofnenda lónsins þeirra Gríms og Eðvards Júlíussonar, viðskiptafélaga hans og fyrrverandi formanns bæjarráðs í Grindavík. Félagið sameinaðist síðan öðru félagi í eigu Gríms, Kólfs ehf. en þetta félag á þriðjungshlut í lóninu. Hvatning ehf. tók upp nafn Kólfs.

Langtímaskuldir Kólfs voru 1,2 milljarðar króna í lok árs 2010, en allar eignir félagsins, m.a hlutabréf í Bláa Lóninu voru veðsettar Landsbankanum af þessum sökum.

Í ársreikningi Kólfs ehf. fyrir árið 2011 eru skuldirnar komnar niður í rúmlega 800 milljónir króna, (langtímaskuldir 0 krónur, en skammtímaskuldir 802 m.kr) en félagið heldur enn á eign í Bláa Lóninu sem verðlögð er á 1,1 milljarð króna.

Skýringin á þessu er leiðrétting á ólögmætum gengislánum, en leiðrétting vegna þeirra nam 540 milljónum króna.

Kom aldrei til þess á neinum tímapunkti að Landsbankinn gengi að veðum sínum, þ.e eignum Kólfs? „Það kom aldrei til þess á neinum tímapunkti enda voru þau lán í skilum," segir Grímur. Hann segir að leiðrétting á skuldum sé öll til komin vegna ólögmætra gengislána.

Í desember sl. stofnuðu stærstu hluthafar Bláa Lónsins með sér samlagshlutafélagið Hvatningu slhf. utan um eignarhald sitt á lóninu. Þetta eru Kólfur ehf. sem á þriðjungshlut í Bláa Lóninu og Horn Fjárfestingarfélag, dótturfélag Landsbankans. Þetta félag fer samtals með rúmlega 40 prósenta hlut í Bláa Lóninu hf. thorbjorn@stod2.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×