Innlent

Bjarni Ben: Ætla að halda ótrauður áfram

Magnús Halldórsson skrifar
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, ætlar að halda ótrauður áfram sem formaður Sjálfstæðisflokksins og segist stefna að því að leiða flokkinn í kosningunum næsta vor.

Hann segist fagna komu Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, oddvita Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, í landsmálin og er viss um að innkoma hennar, og góður árangur í prófkjöri í Reykjavík, muni styrkja flokkinn. „Niðurstaðan úr prófkjörum hefur verið góð fyrir flokkinn, og hún styrkir hann fyrir kosningarnar næsta vor. Ég tel vel hafa gengið við að endurheimta traust á flokknum, og við stefnum að sigri í kosningunum. Það er aðalatriðið," segir Bjarni.

Hann hefur þegar rætt við Hönnu Birnu, og segist öðru fremur hafa óskað henni til hamingju með niðurstöðuna í prófkjörinu. Hann segir auk þess ekkert óeðlilegt við að leiðtogar stjórnmálaflokka séu umdeildir, ekki síst eftir hrun þar sem stjórnmálin hafi einkennst af miklum átökum. „Aðalatriðið er að Sjálfstæðisflokkurinn nái góðum árangri í kosningum, og fulltrúar flokksins standi saman í aðdraganda þeirra. Ég mun beita mér fyrir því, líkt og ég hef gert hingað til sem formaður."

Hanna Birna Kristjánsdóttir vann afgerandi sigur í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík um liðna helgi, fékk 5.438 atkvæði í fyrsta sæti en alls voru greidd 7.546 atkvæði í prófkjörinu. Bjarni Benediktsson fékk síðri kosningu í Suðvesturkjördæmi, eða 2.728 atvæði í fyrsta sæti en alls voru greidd 5.070 atkvæði í prófkjörinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×