Innlent

Stingur upp á ríkisflugfélagi

GRV skrifar
Jón Bjarnason þingmaður VG viðrar þá hugmynd að ríkið stofni flugfélag til þess að sinna flugsamgöngum til landsbyggðarinnar.

Flugfélagið Ernir tilkynnti í gær að allt stefni í að hætta verði áætlunarflugi til minni áfangastaða félagsins á landsbyggðinni. Sveitarstjórnir víðsvegar um land hafa mótmælt þessum fyrirætlunum og skorað á Innanríkisráðuneytið og Alþingi að grípa til aðgerða. Jón Bjarnason þingmaður VG hefur óskað eftir umræðum á Alþingi um málið.

„Þetta er alvarlegt mál sérstaklega fyrir byggðir sem hafa ekki aðrar samgöngur en með flugi yfir lengstan hluta ársins. Þessi óvissa og þessar hótanir eru auðvitað alveg óviðunandi fyrir íbúana á þessum svæðum. Þessvegna hef ég óskað eftir því að ræða þetta á Alþingi og heyra til hvaða aðgerða er hægt að grípa til að tryggja þetta flug áfram," segir hann.

En til hvaða aðgerða á að grípa að mati Jóns?

„Okkur ber öllum skylda til að halda uppi samgöngum og þjónustu við íbúana hvar sem þeir búa á landinu. Þarna er flugið afar mikilvægt. Við höfum nýlega gert þjónustusamninga um áætlunarferðir með bílum eftir megin veglínunum og því ekki þá að ríkið líka beri ábyrgð á samgöngunum þarna," segir hann.

„Og ef það þarf að setja á fót ríkisflugfélag eða með öðrum hætti að koma beint að því, þá verður að gera það. Því þetta er réttur íbúanna á þessum stöðum og okkar eru skyldurnar," bætir hann við að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×