Innlent

Selaát örvar kynhvötina

BBI skrifar
Selkjöt er frygðarauki.
Selkjöt er frygðarauki. Mynd/Vilhelm
Selaát hefur kynörvandi áhrif. Þetta fullyrðir Sophus Magnússon selaveiðimaður frá Ísafirði sem veiðir og verkar sel allan ársins hring.

„Það er alveg ótvírætt að það er mikill kynhvati af þessu kjöti," segir Sophus „Ég þekki af þessu margar sögur og get bara sagt þér eina upp úr bókunum hans Gísla Hjartarsonar," segir hann og rekur söguna. „Þar segir Halfdan Guðreðarson frá því þegar konan flúði frá honum á ellefta sel. Það segir sig náttúrlega sjálft. Það var ekki af því að hún hefði fengið ólyst á matnum heldur því hún þoldi ekki við vegna kraftsins í karlinum."

Sophus Magnússon veiðir einkum sel til eigin neyslu en þó er hann líka stundum fenginn til að útvega sel þegar til stendur að halda veislur eða uppákomur. „Við gerum þetta eftir þörfum fólks. Ég hef gert þetta alveg frá því ég var krakki. Þegar okkur vantar sel þá næ ég í sel," segir hann en hann veiðir hann allan ársins hring.

„En það fer alla vega ekkert milli mála að þetta er frygðaraukandi. Hérna áður hefði margur Íslendingurinn hvorki komist af eða undir ef ekki hefði verið fyrir selinn," segir hann.

Það var fréttamiðillinn Bæjarins Besta sem greindi fyrst frá þessu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×